Verðbólga í Tyrklandi mældist 85,51% í október, samkvæmt gögnum frá Hagstofu Tyrklands. Til samanburðar mældist hún 83,45% í september og 80,2% í ágúst, og hefur ekki verið meiri í 24 ár. Þetta kemur fram í grein hjá Reuters.
Verðbólgan jókst um 3,54% milli mánaða. Verð á fatnaði hækkaði um 8,34% milli mánaða og matarverð hækkaði þá um 5,09%, en matarverð hefur tvöfaldast á milli ára. Þá hefur samgöngukostnaður hækkað um 117% milli ára.
Seðlabanki Tyrklands áætlar að verðbólgan í lok árs verði 65,2%
Á sama tíma og verðbólgan hefur aukist hratt hefur Erdogan Tyrklandsforseti skipað seðlabanka landsins að lækka vexti. Þannig hefur bankinn lækkað vexti um samtals 350 punkta á síðustu þremur mánuðum, úr 14% niður í 10,5%.