Tæknirisinn Apple gerir ráð fyrir að tollar Trumps muni leiða til viðbótarkostnaðar upp á 900 milljónir dala, eða sem nemur 117 milljörðum króna, á yfirstandandi ársfjórðungi sem lýkur í júní.

Samkvæmt frétt Wall Street Journal virtist Tim Cook, forstjóri Apple, gefa til kynna á fjárfestafundi vegna uppgjörs 2. ársfjórðungs í síðustu viku að kostnaðurinn gæti aukist ef tollar haldast óbreyttir auk þess sem sértækir tollar á framleiðslu hálfleiðara hefðu mikil áhrif. Til að bregðast við verða vörur Apple m.a. fluttar til Bandaríkjanna frá Indlandi og Víetnam í stað Kína.

Hlutabréfaverð Apple féll um 4% á föstudag og 3% til viðbótar á mánudag en frá því að Trump kynnti tollaáform sín í byrjun apríl hefur markaðsvirði Apple fallið um 350 milljarða dala. Telja sérfræðingar óhjákvæmilegt að fyrirtækið hækki verð til neytenda til að bregðast við stöðunni.