Íslenskir stjórnmálaflokkar fengu samtals úthlutað tæplega 10,6 milljörðum króna úr ríkissjóði, á verðlagi dagsins í dag, á tímabilinu 2010-2025. Sjálfstæðisflokkurinn hefur, þar til í síðustu alþingiskosningum, verið stærsti flokkur landsins á tímabilinu. Flokkurinn hefur fengið hæsta úthlutun úr ríkissjóði á tímabilinu, eða alls rétt rúmlega 2,6 milljarða króna á verðlagi dagsins í dag. Samfylkingin, sem er í dag stærsti flokkurinn á þingi, hefur fengið næst mest í sinn hlut, eða hátt í 1,7 milljarða króna.

Framlög til stjórnmálaflokka hafa verið til mikillar umræðu í fjölmiðlum sem og í samfélaginu eftir að Morgunblaðið greindi frá því að Flokkur fólksins hafi þegið 240 milljónir króna úr ríkissjóði án þess að uppfylla skilyrði laga um starfsemi stjórnmálasamtaka sem snýr að skráningu í stjórnmálasamtakaskrá Skattsins. Flokkurinn hefur ekki enn verið skráður í stjórnmálasamtakaskrá og fékk því ekki framlag úr ríkissjóði á þessu ári.

Síðar greindi Vísir svo frá því að fleiri stjórnmálaflokkar hafi veitt framlögunum viðtöku án þess að uppfylla umrætt skilyrði. Píratar og Sjálfstæðisflokkurinn hafi þegið framlög árið 2022 áður en flokkarnir voru skráðir á stjórnmálasamtakaskrá. Þá hafi Sósíalistaflokkurinn þegið framlög árin 2022 og 2023, og Vinstri græn árin 2022, 2023 og 2024 án þess að uppfylla skilyrðið um skráningu á stjórnmálasamtakaskrá.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur gefið út yfirlýsingu þar sem segir að flokkurinn líti svo á að öll skilyrði laga til að fá framlag úr ríkissjóði hafi verið uppfyllt árið 2022 og innan þeirra tímamarka sem lög kveða á um. Flokkurinn var skráður í skrána 8. apríl 2022 en fékk framlagið greitt út úr ríkissjóði um mánaðamótin janúar-febrúar sama ár.

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hvers ráðuneyti fer með framkvæmd greiðslna framlagsins hefur sagt málið vera til skoðunar í ráðuneytinu og hann muni ekki tjá sig um mögulega endurgreiðslukröfu á hendur flokkanna sem ekki uppfylltu fyrrgreint skilyrði fyrr en að þeirri vinnu lokinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.