Bandaríski fjárfestirinn Bill Ackman hefur lokið margra ára áformum sínum um að stofna fjárfestingasamstæðu í anda Berkshire Hathaway, með því að tryggja sér yfirráð yfir fasteignaþróunarfélaginu Howard Hughes Holdings.
Samkvæmt Financial Times mun félagið taka á sig nýja mynd sem fjölþætt samstæða og fjárfestingafélag, undir stjórn Ackmans og Pershing Square Capital.
Ackman, sem hefur verið stærsti hluthafi Howard Hughes frá stofnun félagsins árið 2012, fjárfesti nýverið fyrir 900 milljónir Bandaríkjadala til viðbótar í félaginu og tryggði sér þannig ráðandi áhrif.
Samhliða þessu verður stefnu félagsins breytt verulega. Félagið mun hætta að einblína á fasteignir og í staðinn beina sjónum að yfirtökum á einkareknum og skráðum fyrirtækjum.
Í yfirlýsingu sagði Ackman að markaðurinn hefði hingað til vanmetið undirliggjandi virði Howard Hughes, en nú væri rétti tíminn til að umbreyta félaginu:
„Howard Hughes hefur lengi verið vanmetið af fjárfestum. Við höfum nú tækifæri til að byggja upp sterka og arðbæra fjárfestingasamstæðu á traustum grunni.“
Stjórn Howard Hughes hefur samþykkt að fela Pershing Square fjárfestingar fyrir hönd félagsins en sem af samningnum mun félagið greiða Pershing Square 15 milljónir dala árlega fyrir störf þeirra, sem Ackman og aðalstjórnandi hans, Ryan Israel, leiða.
Auk þess fær Pershing Square árangurstengda umbun sem nemur 1,5% af raunaukningu á markaðsvirði félagsins umfram verðbólgu. Þetta fyrirkomulag er umdeildara en hefðbundin árangurshindrun (e. performance hurdle), en þó hóflegra en fyrri tillögur.
Upprunalega lagði Ackman til að Pershing Square fengi 1,5% þóknun af allri hækkun markaðsvirðis, án nokkurrar árangursviðmiðunar.
Sú tillaga vakti töluverða andstöðu meðal hluthafa og var talin geta leitt til verulegra greiðslna til Pershing Square, jafnvel ef virðisaukningin stafaði af nýju hlutafé fremur en rekstrarárangri.
Stjórn félagsins skipaði sérstaka nefnd til að endurskoða tillögurnar. Endurbætt samkomulag, sem kveður m.a. á um að umbunin taki mið af núverandi fjölda hluta og markaðsvirði, hefur fengið jákvæðari viðbrögð.
„Breytingin á stjórnunargjaldinu er veruleg og til bóta,“ segir stór hluthafi við Financial Times. „Samkomulagið er ekki gallalaust, en stjórnin tók tillit til ábendinga hluthafa.“
Með þessari umbreytingu Howard Hughes hefur Ackman stigið mikilvægt skref í átt að því að skapa eigin fjárfestingasamstæðu í anda Berkshire Hathaway en það hefur verið draumur hans lengi samkvæmt FT.