Allt að 80% einstaklinga stæðust ekki greiðslumat fyrir nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu með lágmarks eigið fé, að því er kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu HMS.

„Einungis 20% tekjuhæstu einstaklingar landsins hafa efni á að kaupa íbúðir sem kosta 60 milljónir króna eða meira, ef gert er ráð fyrir 80% veðsetningarhlutfalli og tekið er tillit til hámarksgreiðslubyrðarhlutfalls Seðlabanka Íslands,“ segir í skýrslunni.

„Framboð nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu sem verðlagðar eru undir 60 milljónum króna er þó verulega takmarkað um þessar mundir.“

Mynd tekin úr mánaðarskýrslu HMS.

Pör standi betur

HMS segir pör standa öllu betur að vígi í þessu samhengi, en samanlagðar tekjur 80% tekjuhæstu paranna dugi til að standa straum af afborgunum af verðtryggðum lánum af íbúðum sem kosta allt að 80 milljónir króna.

Þá ráði 60% tekjuhæstu pörin ráða við afborganir af 80-100 milljóna króna eignum og 40% tekjuhæstu pörin stæðust greiðslumat fyrir 100-130 milljóna króna eignum.

„Ljóst er að flestir einstaklingar og pör þurfa að reiða sig á verðtryggingu íbúðalána sinna til að eiga möguleika á að kaupa þær nýju íbúðir sem til sölu eru á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir sökum hárra vaxta og þröngra lánþegaskilyrða. Án verðtryggingar eru möguleikar til kaupa á nýjum íbúðum verulega takmarkaðir.“