Síðastliðna þrjá mánuði hafa verið yfir 3 þúsund eignir til sölu á fasteignavef mbl.is, mælikvarða Seðlabankans á söluframboð fasteigna, en það er mesti fjöldi í rúman áratug hið minnsta. Um sjöföldun er að ræða frá lágpunktinum í byrjun árs 2022 þegar þær voru undir 500, en þrátt fyrir það seldust fleiri eignir á þeim tíma.

Þetta þýðir að svokallaður meðalsölutími birgða á íbúðamarkaði – önnur mælistika Seðlabankans sem gefur þann tíma sem það tæki að selja hverja einustu auglýstu eign miðað við fjölda þinglýstra kaupsamninga í viðkomandi mánuði – er nú kominn yfir hálft ár, en hann var innan við mánuður þar til um mitt ár 2022.

Sambærilegar tölur og í dag sáust síðast á árunum eftir hrun þegar fasteignamarkaðurinn var enn í sárum. Í þá daga voru tölurnar hins vegar ekki leiðréttar fyrir því þegar eign er auglýst oftar en einu sinni, eins og nú er gert, og tölurnar því ekki með öllu sambærilegar.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.