Lyfjarisinn Bayer skilaði 34 milljóna evra tapi á öðrum ársfjórðungi, sem er þó mun minna tap en á sama fjórðungi í fyrra er félagið tapaði 1,89 milljörðum evra.
Niðurstaðan var töluvert undir væntingum félagsins en það kennir helst erfiðum landbúnaðarmarkaði um það. Þá höfðu greiningaraðilar reiknað með 70 milljóna evra hagnaði á tímabilinu.
Auk þess að framleiða lyf framleiðir Bayer ýmsar lausnir fyrir bændur. Mikið tap sama ársfjórðungs í fyrra átti einnig rætur sínar að rekja til landbúnaðarstarfseminnar.
Sala Bayer nam 11,14 milljörðum evra á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 11,04 milljarða evra sölu á sama tímabili í fyrra.