Rekstrar­hagnaður fyrir mats­breytingar og af­skriftir (EBITDA) fast­eignafélagsins Eikar á fyrstu níu mánuðum ársins nam 5,5 milljörðum króna.

Í árs­hluta­upp­gjöri segir að af­koman sé í góðum takti við upp­færðar horfur félagsins en sam­kvæmt þeim væntir Eik þess að EBITDA- ársins verði á bilinu 7,3 til 7,5 milljarðar.

Rekstrar­tekjur félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins var 8,5 milljarðar. Þar af voru leigu­tekjur 7.328 m.kr. Rekstrar­kostnaður nam 2.935 m.kr. og virðis­rýrnun við­skipta­krafna 42 milljónir króna.

Heildar­hagnaður fast­eignafélagsins nam 3,3 milljörðum króna og var hand­bært fé frá rekstri um 3,5 milljarðar.

NOI hlut­fall (þ.e. rekstrar­hagnaður fyrir mats­breytingu og af­skriftir sem hlut­fall af leigu­tekjum) nam 73,4% á fyrstu níu mánuðum ársins, saman­borið við 74,6% fyrir sama tíma­bil 2023 þegar leiðrétt hefur verið fyrir jákvæðri virðis­rýrnun við­skipta­krafna árið 2023.

Heildar­eignir félagsins voru bók­færðar á 150 milljarða í lok septem­ber en af þeim voru fjár­festingar­eignir metnar á 140 milljarða.

Eigið fé félagsins nam tæpum 50 milljörðum í lok tíma­bilsins og var eigin­fjár­hlut­fall 33,2%. Á aðal­fundi félagsins í apríl var samþykkt að greiða út arð til hlut­hafa vegna rekstrarársins 2023 að fjár­hæð 2,54 milljarðar og var hann greiddur út til hlut­hafa í lok sama mánaðar.

Í lok septem­ber námu heildar­skuldir félagsins um 100 milljörðum króna en þar af voru vaxta­berandi skuldir 82,5 milljarðar og tekju­skatts­skuld­binding 13,3 milljarðar.

Veðhlut­fall félagsins, þ.e. nettó staða vaxta­berandi skulda á móti virði fast­eigna, byggingar­heimilda og lóða var 56,1%.