Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar og afskriftir (EBITDA) fasteignafélagsins Eikar á fyrstu níu mánuðum ársins nam 5,5 milljörðum króna.
Í árshlutauppgjöri segir að afkoman sé í góðum takti við uppfærðar horfur félagsins en samkvæmt þeim væntir Eik þess að EBITDA- ársins verði á bilinu 7,3 til 7,5 milljarðar.
Rekstrartekjur félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins var 8,5 milljarðar. Þar af voru leigutekjur 7.328 m.kr. Rekstrarkostnaður nam 2.935 m.kr. og virðisrýrnun viðskiptakrafna 42 milljónir króna.
Heildarhagnaður fasteignafélagsins nam 3,3 milljörðum króna og var handbært fé frá rekstri um 3,5 milljarðar.
NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir sem hlutfall af leigutekjum) nam 73,4% á fyrstu níu mánuðum ársins, samanborið við 74,6% fyrir sama tímabil 2023 þegar leiðrétt hefur verið fyrir jákvæðri virðisrýrnun viðskiptakrafna árið 2023.
Heildareignir félagsins voru bókfærðar á 150 milljarða í lok september en af þeim voru fjárfestingareignir metnar á 140 milljarða.
Eigið fé félagsins nam tæpum 50 milljörðum í lok tímabilsins og var eiginfjárhlutfall 33,2%. Á aðalfundi félagsins í apríl var samþykkt að greiða út arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2023 að fjárhæð 2,54 milljarðar og var hann greiddur út til hluthafa í lok sama mánaðar.
Í lok september námu heildarskuldir félagsins um 100 milljörðum króna en þar af voru vaxtaberandi skuldir 82,5 milljarðar og tekjuskattsskuldbinding 13,3 milljarðar.
Veðhlutfall félagsins, þ.e. nettó staða vaxtaberandi skulda á móti virði fasteigna, byggingarheimilda og lóða var 56,1%.