William Rudin, stjórnarformaður fasteignafélagsins Rudin Management Company, segir afa sinn Samuel sem byggði upp fasteignaveldi fjölskyldunnar hafa lifað eftir einni grundvallareglu: Aldrei selja.
Að sögn Williams má alltaf búast við sveiflum á fasteignamarkaðinum í New York en afi hans sagðist alltaf getað treyst á að eftirspurnin eftir skrifstofuhúsnæði kæmi aftur með næstu uppsveiflu.
Rudin Management er eitt stærsta fasteignafélag New York borgar en félagið var stofnað af bræðrunum Samuel, Edward, Henry og Nathan Rudin árið 1925.
Þriðja kynslóð afkomenda hefur nú þurft að brjóta grundvallarregluna þar sem útlit er fyrir að eftirspurn eftir skrifstofuhúsnæði verði ekki sú sama og áður.
Í fyrra seldi Rudin fjölskyldan 30 hæða skrifstofubyggingu í miðbæ Manhattan sem hefur verið í eigu fjölskyldunnar frá 1960.
Nú í haust seldi fjölskyldan 80 Pine Street í fjármálahverfi borgarinnar eftir að kjölfestuleigjandinn American International Group (AIG) sagði leigusamningi sínum upp.
„Heimurinn er að breytast,“ segir William Rudin í samtali við The Wall Street Journal. „Við þurfum að endurskoða viðskiptamódelið til að tryggja að það sé undirstaða fyrir næstu kynslóð,“ segir William sem er 69 ára gamall.
Samkvæmt WSJ er gríðarleg niðursveifla að eiga sér stað með atvinnuhúsnæði í New York-borg og hafa margir afkomendur sögufrægra fasteignafélaga í borginni neyðst til að taka sömu ákvarðanir og Rudin-fjölskyldan.
Fasteignafélögunum sem hefur tekist að halda í eignir sínar í gegnum heimsstyrjaldir, kórónuveirufaraldur og efnahagshrun sjá nú enga aðra leið en að selja.
Í dag er þó staðan þannig að fjarvinna er að valda því að útlit er fyrir að eftirspurn eftir risaskrifstofuhúsnæði muni ekki snúa aftur.
Þriðju og fjórðu kynslóðar fasteignafélög hafa því verið að selja áratugagamlar eignir á meðan enn er hægt að fá gott verð fyrir þær.
Samkvæmt The Wall Street Journal er erfitt að finna nákvæmar upplýsingar um sölu á eignum sem hafa verið í fjölskyldueigu til lengri tíma en samkvæmt fjármálafyrirtækinu Eastdil Secured hafa stærstu fasteignafélögin sem eru enn í fjölskyldueigu selt um 10 skrifstofubyggingar síðastliðið ár.
Á áratugnum þar á undan voru einungis fimm skrifstofubyggingar seldar úr slíkum fjölskyldufyrirtækjum.