Gamla laugin ehf., sem rekur sam­nefnda bað­laug að Flúðum í Hruna­manna­hreppi, hagnaðist um 259 milljónir króna í fyrra.

Tekjur af sölu­starf­semi fé­lagsins námu 652 milljónum króna sem þýðir að tæp­lega 40 krónur af hverjum 100 fóru beint í hagnað hjá fé­laginu.

Heildar­velta fé­lagsins var 658,5 milljónir króna á árinu saman­borið við 518,8 milljónir króna á árinu 2022.

Eignir fé­lagsins voru bók­færðar á 371 milljón krónur og var eigið fé 262 milljónir í árs­lok en fé­lagið er nær skuld­laust.

Stjórn fé­lagsins leggur til að hagnaður ársins verði færður til hækkunar á ó­ráð­stöfuðu eigin fé meðal eigin fjár og að arði að fjár­hæð 260 milljónir króna verði út­hlutað til hlut­hafa.

Gamla laugin er í eigu hjónanna Björns Kjartans­sonar og Agnieszku Szwaja.

Elsta sundlaug landsins

Gamla laugin, sem heitir á ensku Secret Lagoon, dregur nafn sitt af laug sem var á sama stað og var opnuð árið 1891 og er sögð vera elsta sund­laug landsins. Sund­kennsla fór fram í lauginni fram til ársins 1947.

Lónið var endur­byggt árið 2014, 67 árum síðar, af nú­verandi eig­endum og opnað sem bað­lón.

Fé­lagið hefur notið góðs af upp­gangi ferða­mennsku á svæðinu enda vin­sælir ferða­manna­staðir á borð við Gull­foss, Geysi og Frið­heima í ná­grenni við Flúðir.

© Aðsend mynd (AÐSEND)