Gamla laugin ehf., sem rekur samnefnda baðlaug að Flúðum í Hrunamannahreppi, hagnaðist um 259 milljónir króna í fyrra.
Tekjur af sölustarfsemi félagsins námu 652 milljónum króna sem þýðir að tæplega 40 krónur af hverjum 100 fóru beint í hagnað hjá félaginu.
Heildarvelta félagsins var 658,5 milljónir króna á árinu samanborið við 518,8 milljónir króna á árinu 2022.
Eignir félagsins voru bókfærðar á 371 milljón krónur og var eigið fé 262 milljónir í árslok en félagið er nær skuldlaust.
Stjórn félagsins leggur til að hagnaður ársins verði færður til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé meðal eigin fjár og að arði að fjárhæð 260 milljónir króna verði úthlutað til hluthafa.
Gamla laugin er í eigu hjónanna Björns Kjartanssonar og Agnieszku Szwaja.
Elsta sundlaug landsins
Gamla laugin, sem heitir á ensku Secret Lagoon, dregur nafn sitt af laug sem var á sama stað og var opnuð árið 1891 og er sögð vera elsta sundlaug landsins. Sundkennsla fór fram í lauginni fram til ársins 1947.
Lónið var endurbyggt árið 2014, 67 árum síðar, af núverandi eigendum og opnað sem baðlón.
Félagið hefur notið góðs af uppgangi ferðamennsku á svæðinu enda vinsælir ferðamannastaðir á borð við Gullfoss, Geysi og Friðheima í nágrenni við Flúðir.