Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,28% á milli september og október hefur nú hækkað um 5,1% á ársgrundvelli samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni. Verðbólgan dróst saman um 0,3 prósentustig frá fyrri mánuði þegar hún mældist 5,4%.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,29% milli mánaða og mældist 2,8% á ársgrundvelli. Árshækkun vísitölunnar án húsnæðis var óbreytt milli mánaða.
Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að verð á mat hafi hækkað um 1,0% milli mánaða og flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 6,6%.
Spáðu verðbólgu á bilinu 5,0-5,2%
Greining Íslandsbanka og Kvika banki spáðu 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) og að ársverðbólga myndi hjaðna niður í 5,2%. Hagfræðideild Landsbankans spáði 0,3% hækkun VNV og að verðbólga myndi mælast 5,1%. Greining Arion spáði 0,2% hækkun VNV og að verðbólga yrði 5,0%.
Næsta boðaða vaxtaákvörðun Seðlabankans er þann 20. nóvember næstkomandi. Peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði stýrivexti úr 9,25% í 9,0% í byrjun mánaðarins.