Smásölufyrirtækið Hagar gekk á dögunum frá kaupum á færeyska félaginu P/F SMS sem rekur meðal annars átta Bónus verslanir í Færeyjum. Heildarvirði SMS í viðskiptunum nam 467 milljónum danskra króna eða rúmlega 9 milljörðum íslenskra króna.

Kaupin eru í samræmi við markmið Haga og stefnu sem kynnt var í vor um að horfa til nýrra tækifæra til að efla starfsemi félagsins enn frekar, bæði tengt kjarnastarfsemi og nýjum tekjustraumum eða stoðum í rekstri.

Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segir í viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær að félagið sé áfram opið fyrir tækifærum á markaðnum,

„Við höfum fyrst og fremst áhuga á rekstri sem fellur vel að okkar stefnu og felur í sér tækifæri til að styðja við eða bæta afkomu Haga sem samstæðu. Með öðrum orðum þá er ekki sjálfstætt markmið hjá okkur að stækka, heldur viljum við aðallega gera betur í dag en í gær,“ segir Finnur, spurður um ofangreinda stefnumörkun Haga.

„Þetta á annars vegar við um þjónustu okkar við þann fjölda viðskiptavina sem treystir okkur á hverjum einasta degi, en einnig um um að skila stöðugt sterkari rekstri með bættri afkomu og þá um leið auknu virði til okkar hluthafa.“

Um það leyti sem Finnur tók við sem forstjóri um mitt ár 2020 mótuðu Hagar áherslur í rekstri og stefnu um að einfalda starfsemi samstæðunnar og einbeita sér að því að efla grunnrekstur mikilvægustu rekstrareininga sinna sem tengjast dagvöru, eldsneyti og tengdum vöruflokkum.

Í viðtalinu er fjallað stuttlega um helstu breytingar á samstæðu Haga á undanförnum fjórum árum sem byggðu á ofangreindri stefnumörkun.

„Við munum auðvitað halda áfram að leggja áherslu á að hagræða í okkar rekstri, eins og við höfum alltaf gert. Undanfarna mánuði höfum við einnig verið að horfa til tækifæra til að byggja upp nýja tekjustrauma, bæði sem tengjast okkar kjarnastarfsemi en ekkert síður erum við opin fyrir því að bæta við nýjum stoðum í starfsemi Haga – við erum því áfram opin fyrir tækifærum sem passa vel við Haga.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um kaup Haga á SMS í Viðskiptablaði vikunnar.