Áfram er rautt um að litast á íslenskum hlutabréfamarkaði og á alþjóðlegum mörkuðum í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Gengi allra félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar lækkaði í dag. Úrvalsvísitala íslenska hlutabréfamarkaðarins lækkaði um tæp 2% í viðskiptum dagsins og hefur nú lækkað um rúm 11% frá áramótum.
Iceland Seafood lækkaði mest allra félaga á markaði í dag. Gengi bréfa félagsins lækkaði um 6,8% í 140 milljón króna viðskiptum og stendur nú í 13,7 krónum á hlut. Það hefur ekki verið lægra síðan í febrúarmánuði í fyrra, en gengið hefur lækkað um 7,5% frá áramótum. Flugfélagið Icelandair lækkaði um 3,5% í 430 milljóna viðskiptum. Gengi bréfa Marel lækkaði um 1,7% í 780 milljóna viðskiptum, en gengi félagsins hefur ekki verið lægra síðan í desember 2020.
Mest velta var með bréf Kviku banka, en viðskipti með bréf bankans námu 1,5 milljörðum króna. Gengi bréfa félagsins lækkaði um 2,6% fyrir vikið. Nokkur velta var með bréf Arion banka, eða um milljarður króna. Gengi bréfa félagsins lækkaði minnst allra á aðalmarkaði, um 0,8%. Heildarvelta á aðalmarkaði nam 5,7 milljörðum króna í viðskiptum dagsins.
Á First North markaðnum hækkaði Solid Clouds um tæp 17% í 315 þúsund króna viðskiptum. Gengi bréfa flugfélagsins Play lækkaði um rúm 4% í viðskiptum dagsins, en viðskipti með bréfin námu 90 milljónum króna. Gengi félagsins stendur nú í 22,5 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í september í fyrra. Gengi bréfa Hampiðjunnar lækkaði um rúm 2,2% í 200 þúsund króna viðskiptum og gengi Kaldalóns sömuleiðis um 2,6% í 15 milljóna viðskiptum.
Bandarísku vísitölunar S&P 500 og Dow Jones hafa báðar lækkað nokkuð milli daga, þegar þetta er skrifað. S&P hefur lækkað um 1,3% og Dow Jones um 1,7%. Breska vísitalan FTSE 100 lækkaði um 1,7% milli daga.