Þó svo að framleiðni í íslenska hagkerfinu teljist nokkuð mikil í alþjóðlegum samanburði þá kemur fram í skýrslu OECD að blíkur hafi tekið að birtast á lofti frá árinu 2008. Vöxtur framleiðni hefur minnkað stöðugt frá þeim tíma.

Eins og fram kemur í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þá er framleiðni mikil í geirum eins og sjávarútvegi, fiskeldi, fjármálaþjónustu og í upplýsingatækni. Annað er upp á teningnum þegar kemur að geirum á borð við ferðaþjónustu, verslun og þjónustu og annarri matvælaframleiðslu en sjávarútvegi. Vandinn verður brýnni þegar haft er í huga að vægi síðarnefndu greinanna hefur vaxið undanfarin áratug hefur meiri þungi í hagkerfinu færst til geira sem eru mannaflsfrekari á borð við ferðaþjónustu og mannvirkjagerð sem eru með lægri framleiðni en þeir sem fyrst voru taldir upp.  Að þessu við bættu hefur vöxtur opinbera geirans mikil áhrif á þessa þróun.

Helstu áskoranirnar sem AGS og OECD segja íslenska hagkerfið standa frammi fyrir er hversu lítill framleiðnivöxturinn hefur verið í tæpa tvo áratugi. Vinnuafl flyst ekki eins og áður í geira sem hafa mikla framleiðni og á sama tíma segja báðar stofnanir litla fjárfestingu vera í nýsköpun og stafrænni tækni.

Fá hraðvaxtarfyrirtæki

Vafalaust kemur það síðastnefnda mörgum á óvart en glöggt er gests augað. Í skýrslu AGS kemur fram að hlutfall svokallaðra hraðvaxtarfyrirtækja er lágt á Íslandi samanborið við önnur Evrópuríki og samkvæmt sérfræðingum sjóðsins er það til marks um að íslensk nýsköpunarfyrirtæki vaxi ekki nægilega hratt til þess að setja mark sitt á framleiðni í hagkerfinu.  Þá er einnig nefnt að sívaxandi útgjöld hins opinbera grefur enn fremur undan framleiðnivexti í hagkerfinu. Þó verður að hafa í huga að töluvert hefur verið um beina erlenda fjárfestingu í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum á liðnum árum og þau tekin yfir þannig að áhrifa þeirra gætir ekki lengur í hagkerfinu. Má í þessu samhengi nefna Kerecis, Tempo, Greencloud og PayAnalytics svo einhver dæmi séu tekin.

Meðal tillagna til úrbóta er að stuðla að aukinni fjárfestingu í stafrænum innviðum og tækni. Fram kemur í umfjöllun stofnananna að mörgu leyti sé nýsköpunarumhverfið hér á landi til eftirbreytni en að sama skapi er bent á að staða ríkisfjármála takmarki að einhverju leyti hversu langt er hægt að ganga með rekstri opinberra stuðningskerfa við nýsköpun og skattaívilnunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.