Útlánavextir íslensku viðskiptabankanna eru allt að 0,96–1,15 prósentustigum hærri en gerist og gengur annars staðar á Norðurlöndum vegna svokallaðs „Íslandsálags“, samkvæmt úttekt sem ráðgjafarfyrirtækisið Intellecon vann fyrir Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu.
Íslandsálag á í þessu tilviki við um allar þær álögur sem lagðar eru á innlend fjármálafyrirtæki í formi sértækra skatta, hærri eiginfjárkrafna og óvaxtaberandi bindiskyldu. Til að leggja mat á Íslandsálagið er gefin sú forsenda að áhrif af álögum komi einungis fram í útlánavöxtum.
Hugtakið Íslandsálag er fengið úr Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá árinu 2018. Einn þáttur af álaginu er smæð íslenska markaðarins sem gerir það að verkum að íslensku bankarnir geti ekki náð sömu stærðarhagkvæmni og stærri bankar erlendis.
Aðspurður segir Gunnar Haraldsson, framkvæmdastjóri Intellecon, að þessi þáttur hafi ekki verið metinn sérstaklega í úttekt Intellecon, enda sé það erfitt. Hann bendir þó á að gjarnan sé gerð meiri krafa um arðsemi eiginfjár á smærri mörkuðum.
„Það er kannski umhugsunarefni fyrir okkur að erlendir bankar skuli ekki starfa hér á landi. Þeir hafa vissulega verið að lána stórum íslenskum fyrirtækjum en þeir hafa ekki séð hag sinn í því að vera með starfsemi á neytendamarkaði. Þá má velta fyrir sér af hverju það sé,“ segir Gunnar
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn síðasta.