Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti í dag að fela bæjarstjóra að útbúa samning um afnot af svæði til skipulagsgerðar fyrir kláf upp Eyrarhlíð og leggja fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd til afgreiðslu. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs.
Félagið Eyrarkláfur ehf., sem hefur unnið að undirbúningi uppsetningu kláfs upp Eyrarhlíð undanfarin ár, stefnir að því að taka ákvörðun um fjárfestingu í fullhönnun verkefnisins eigi síðar en 1. mars næstkomandi.
„Forsenda áframhaldandi þróunar verkefnisins af hálfur félagsins er að samþykki sveitarfélagsins um úthlutun lóða liggi fyrir. Þá er nauðsynlegt að skipulagsvinnu og nauðsynlegum leyfisveitingum sé lokið eigi síðar en 1. mars 2026,“ segir í bréfi Gissurar Skarphéðinssonar, framkvæmdastjóra Eyrarkláfs, til bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá 19. nóvember síðastliðnum.
Ferli málsins „Kláfur upp Eyrarhlíð“ hófst hjá bæjarfélaginu í ágúst 2019 þegar hugmynd að uppsetningu kláfs var kynnt á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar.
Tillaga sem þá var kynnt felur í sér eina byrjunarstöð og eina endastöð fyrir lyftu upp Eyrarfjall. Í tillögunni er gert ráð fyrir hóteli og veitingastað á Eyrarfjalli auk göngustíga og aðstöðu fyrir ýmsa útivist á svæðinu.
Áætlaður heildarkostnaður verkefnisins eru 3,5 milljarðar króna, að því er kemur fram í viðtali FF7 við Gissur frá því í janúar 2024. Þar kemur fram að fyrsta áætlun geri ráð fyrir að far upp og niður kosti 7.500 krónur fyrir fullorðinn einstakling.
Sumarið 2021 úrskurðaði Skipulagsstofnun að framkvæmdin væri háð umhverfismati. Eyrarkláfur kærði ákvörðun Skipulagsstofnunar en kröfum félagsins var hafnað.
Eyrarkláfur fékk í fyrra 2 milljóna króna styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða til að hefja umhverfismatsvinnu og sér félagið Rorum ehf. um umhverfismatið. Þá stendur nú vinna við tillögur til breytinga á aðal- og deiliskipulagi með Eflu á Ísafirði.
Málið náði aftur athygli bæjarráðs í síðasta mánuði þegar fulltrúar framkvæmdaraðila mættu á fund til að ræða framvindu málsins. Í erindi Eyrarkláfs er óskað eftir vilyrði fyrir nýtingu félagsins á landsvæði í Ísafjarðarbæ á þeim svæðum sem verkefnið þarfnast og að gengið verði til samninga á milli aðila þar sem nánar verði mælt fyrir einstaka þætti verkefnisins.
Bæjarráð fól bæjarstjóra að vinna áfram að málinu „en ljóst er að mörg atriði þurfa enn frekari skoðunar“, segir í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs bæjarfélagsins.
Næstu skref eru að gera samning um afnot af svæði til skipulagsgerðar. Í minnisblaðinu má finna upplýsingar um næstu skref og grófa tímalínu fyrir verkefnið.