Landsbankinn hækkaði vexti breytilegra verðtryggðra íbúðalána um 25 og 50 punkta á mánudag. Hækkunin kemur í kjölfar útboðs bankans á sértryggðum skuldabréfum í síðustu viku. Líkur eru á að verðtryggðir vextir bankanna hækki enn frekar.
Landsbankinn hækkaði vexti breytilegra verðtryggðra íbúðalána um 25 og 50 punkta á mánudag. Hækkunin kemur í kjölfar útboðs bankans á sértryggðum skuldabréfum í síðustu viku. Líkur eru á að verðtryggðir vextir bankanna hækki enn frekar.
Bankarnir fjármagna íbúðalán sín að hluta með útgáfu sértryggðra skuldabréfa til fimm ára og hefur ávöxtunarkrafan í slíkum útboðum farið hækkandi undanfarin misseri. Það er ekki eingöngu vaxtastig Seðlabankans sem hefur ráðið þeirri þróun heldur einnig mikil útgáfa ríkisins á skuldapappír og þá fyrst og fremst stuttum víxlum.
Nú hafa viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, hækkað vexti á verðtryggðum fasteignalánum með skömmu millibili. Allir bankarnir rökstyðja vaxtahækkunina með því að benda réttilega á að verðtryggð fjármagnskjör þeirra hafi versnað að undanförnu.
Arion gaf síðast út sértryggð bréf í ágúst, Íslandsbanki í byrjun mánaðar og Landsbankinn sem fyrr segir í síðustu viku. Krafan í útboði Arion var 3,64%, 4,24% hjá Íslandsbanka og 4,,02% hjá Landsbankanum en bréfin eru með mismunandi líftíma. Á þessum tíma hefur krafan á ríkisbréf sem liggja til grundvallar verðlagningu sértryggðu bréfanna hækkað um 20-60 punkta. Álagið á sértryggðu bréf bankanna umfram það sem ríkið greiðir er um 60 punktar.
Þetta hefur leitt til þess að vextir á hagstæðustu óbundnu verðtryggðu fasteignalánum bankanna eru nú á bilinu 4-4,64 prósent. Vextirnir á föstum verðtryggðum lánum eru á bilinu 4,55-4,79 prósent. Bankarnir nota mismuninn á milli útlánavaxta og fjármögnunarkjara til þess að standa straum af kostnaði, sköttum og svo framvegis.
En bankarnir standa frammi fyrir ákveðnum vanda. Þrátt
fyrir að vextir séu enn í hæstu hæðum telja flestir að Seðlabankinn muni lækka vexti á næstu misserum – að við séum við það að fara inn í „niðurfallandi vaxtaferil“ eins og skuldabréfamiðlarar kjósa að kalla það. En það eru ekki miklar væntingar um kröftugar vaxtalækkanir rétt eins og sú staðreynd að
vextir á föstum fasteignalánum eru hærri en á óbundnum. Það er því ekki útilokað að verðtryggð fjármögnun bankanna muni hækka enn frekar.
Benedikt bankastjóri skýrir málið
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, lýsti þessari stöðu í grein sem hann birti á Vísi nokkrum dögum eftir að bankinn hækkaði vexti nú síðast. Þar segir hann að ólíkar væntingar til lækkunar verðbólgu annars vegar og lækkunar vaxta Seðlabankans hins vegar leiði til þess að verðtryggðir vextir hækki enn frekar. „Það er einfaldlega svo að þegar stýrivextir lækka ekki í takt við lækkandi verðbólgu þá hækka verðtryggðir vextir. Þess vegna þurftum við nýverið að hækka vexti verðtryggðra lána,” segir Benedikt í grein sinni.
Fátt bendir til þess að breytinga sé að vænta í þessum efnum. Í nýrri hagspá Íslandsbanka er því spáð að vextir verði einungis komnir í 8,25% um mitt næsta ár og 7,5% undir lok ársins.
Skakkir bankar
Annar vandi sem bankarnir standa frammi fyrir um þessar mundir felst í svokallaðri verðtryggingarskekkju – það er mismunurinn á verðtryggðum eignum og skuld á efnahagsreikningi þeirra. Hátt vaxtastig hefur margfaldað eftirspurn
eftir verðtryggðum lánum á sama tíma og bönkunum hefur ekki tekist að para verðtryggða fjármögnun við þá þróun. Verðtryggingarjöfnuður bankanna er nú jákvæður um 500 milljarða.
Mikil verðtryggingarskekkja eykur vaxtaáhættu bankanna og kallar á meiri eiginfjárbindingu og mun vafalaust endurspeglast í töluverðum sveiflum í afkomu bankanna á næstu misserum, sérstaklega ef lækkandi verðbólga helst ekki í hendur við lækkun vaxta.
Það mun taka tíma fyrir bankana að sigla í átt að frekara jafnvægi þegar kemur að verðtryggðum útlánum og verðtryggðri fjármögnun. Þessi staða er ekki fáheyrð. Verðtryggingarskekkjan var talsverð áður en heimsfaraldurinn braust út en jafnvægi komst á þegar Seðlabankinn fór að lækka vexti hratt vegna óvissunnar sem plágan skapaði.
Hugmyndum Ásgeirs hrint í framkvæmd
Verðtryggingarskekkjan er án efa ástæða þess að Landsbankinn kynnti í vikunni að nú myndu einungis kaupendum á fyrstu fasteign þeirra standa til boða verðtryggð jafngreiðslulán. Hefði bankinn ráðist í þessa aðgerð hefði hann sennilega þurft að hækka vexti enn frekar. Ekki er loku fyrir það skotið að Arion og Íslandsbanki íhugi að feta sömu leið. Áhugavert er að hafa í huga að Ásgeir Jónsson hreyfði við þeirri hugmynd að banna verðtryggð jafngreiðslulán til lengri tíma í skýrslu sem hann ritaði með Valdimari Ármann, sérfræðingi hjá Artctica Finance, fyrir Samtök fjármálafyrirtækja og kom út 2012.