Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Aldin Dynamics, sem skapar tækni og upplifanir fyrir sýndarveruleika, margfaldaði tekjur sínar fyrr í sumar í kjölfar þess að vara félagsins náði mikilli útbreiðslu (e. viral).
Varan, Waltz of the Wizard, gerir notendum kleift að stíga inn í ævintýralegan heim og kynnast dularfullum sögupersónum. Til marks um útbreiðsluna hefur varan fengið yfir 100 milljónir áhorfa um heim allan.
Hrafn Þorri Þórisson, framkvæmdastjóri Aldin, stofnaði fyrirtækið árið 2013 ásamt Gunnari Steini Valgarðssyni.
„Við höfum einblínt á að skapa sögupersónur sem hegða sér eins og lifandi persónur með hjálp sýndarveruleika. Notendur þurfa ekki að notast við stýripinna heldur stýra þeir ferðinni með höndunum. Við höfum hannað heim þar sem markmiðið er að notendur upplifi að þeir stígi inn í annan veruleika. Við viljum ekki að fólki líði eins og það sé að spila tölvuleik,“ segir Hrafn.
Í heimunum sem Aldin hefur þróað beita notendur eigin rödd til að ræða við sögupersónurnar, auk þess að geta smellt fingrum, beitt handabendingum og ýmsu öðru látbragði. Sögupersónurnar eru hannaðar til að skilja orð og látbragð notenda með hjálp gervigreindar.
„Notast er við gervigreind til að greina hvern og einn notanda þannig að samskipti þeirra við sögupersónurnar jafnist á við samskipti við fólk í raunheimum. Við höfum því einblínt á að framleiða skemmtiefni en höfum um leið byggt upp og þróað hugbúnaðartól sem vörurnar byggja á.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.