Í desember flutti Icelandair 235 þúsund farþega sem er 7% fleiri farþegar en í desember árið 2016. Framboðsaukning á milli ára nam 10% og sætanýting var 76,5% samanborið við 77,2% árinu á undan.
Farþegar Air Iceland Connect, sem áður hét Flugfélag Íslands og sinnir innanlandsfluginu, voru 23 þúsund og fjölgaði um 13% á milli ára. Air Iceland Connect jók framboðið um 18% og sætanýting nam 58,7%.
Seldir blokktímar í leiguflugi jukust um 55% á milli ára. Fraktflutningar jukust um 19% frá því á síðasta ári. Herbergjanýting á hótelum félagsins var 68,2% samanborið við 67,9% í desember í fyrra.
Af 4 milljónum farþega alls fóru 350 þúsund í innanlandsflug
Flutningatölur fyrir árið 2017 liggja nú fyrir. Icelandair hefur aldrei flutt fleiri farþega en á árinu 2017. Þeir voru alls 4,0 milljónir og fjölgaði um 10% frá fyrra ári. Sætanýting ársins nam 82,5% og jókst um 0,3 prósentustig samanborið við árið 2016. Heildarfjöldi farþega Air Iceland Connect var 349 þúsund og jókst um 7% á milli ára.
Seldir blokktímar í leiguflugi jukust um 17% og flutt frakt um 11%. Herbergjanýting á hótelum félagsins á árinu 2017 var 81,2% samanborið við 81,5% árið 2016.