„Þetta er fjórða sumarið okkar og það hefur aldrei gengið jafn vel," segir Ingibjörg Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Hótels Flateyjar. Heimamenn eru á því að það hafi sjaldan eða aldrei verið jafn gestkvæmt í eynni og í sumar.
Met hafi verið slegið í júlí. Bróðurpartur gestanna eru Íslendingar.
„Þeir hafa ferðast meira innanlands í sumar og eru að uppgötva þessa perlu. Það hafa ekki allir komið út í Flatey," segir Ingibjörg.
Hótel Flatey var opnað sumarið 2006 með fimm herbergjum og veitingastað. Seinna var fleiri herbergjum bætt við og eru þau nú alls þrettán. Hótelið er í gömlu endurgerðu samkomuhúsi og pakkhúsi og er húsnæðið í eigu Minjaverndar.
„Herbergin hafa engin númer heldur bera fuglanöfn - það fær því engin herbergi númer þrettán," útskýrir Ingibjörg. „Þetta er lítið hótel og erum við því aldrei með stóra hópa, einungis einstaklinga og litla hópa."
Tvær fjölskyldur búa á eynni en aðal ferðamannatíminn er yfir hásumarið. Auk hótelsins í Flatey er boðið upp á heimagistingu og tjaldstæði. Þá eiga nokkrar fjölskyldur hús í eynni og tvö starfsmannafélög. Heimamenn telja að auknar vinsældir megi meðal annars rekja til kvikmyndanna sem hafi verið teknar upp á eynni. Þar var Nonni og manni tekin upp, Ungfrúin góða og húsið og nú síðast: Brúðguminn.