Árið 2021 var metár hjá ullarvinnslufyrirtækinu Íslenskum textíliðnaði (Ístex), bæði hvað varðar tekjur og hagnað. Tekjur félagsins jukust um 44% á milli ára og námu 1,2 milljörðum króna á síðasta ári. Ístex, sem er að mestu í eigu bænda, hagnaðist um 93,5 milljónir samanborið við 67,5 milljóna tap árið 2020. Í ársreikningi Ístex segir að rekstur félagsins hafi einkennst af mikilli eftirspurn eftir lopa-handprjónabandi en sala í þeim flokki jókst um 50% frá fyrra ári.
Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístex, segir að líklega hafi aldrei verið selt jafnmikið af handprjónabandi í sögu Íslands og í fyrra, þótt framleiðslan kunni að hafa verið meiri þegar verksmiðjan gekk undir nafninu Álafoss. Prjónaskapur í faraldrinum hafi leitt til aukinnar sölu bæði innanlands og erlendis. Félagið gerir ráð fyrir frekari tekjuvexti og að veltan nemi 1,3 milljörðum í ár.
„Við sjáum fram á áframhaldandi eftirspurn þrátt fyrir að áhrif Covid-faraldursins séu að minnka. Í þessu ljósi má nefna að eftir efnahagshrunið 2008 var mikil aukning í handprjóni, sérstaklega hérlendis, og sem fór í rauninni aldrei niður.“
Vægi útflutnings af heildartekjum Ístex hefur aukist töluvert á undanförnum árum og var komið í 60% árið 2020. Sigurður segir að mikil söluaukning hafi verið á ákveðnum mörkuðum og nefnir Finnland sem dæmi. Þar hafi salan tvöfaldast árlega frá árinu 2017.
Útrás velti á framleiðslunni
Sigurður segir að félagið hafi ekki náð að anna eftirspurn og var það með um 130 tonn í sölupöntunum um áramótin, sem er ígildi nærri sex mánaða framleiðslu. Félagið reynir nú allt til auka framleiðslugetuna og hefur m.a. byrjað með kvöldvaktir og fjárfest í nýjum tækjabúnaði. Ístex fékk nýja dokkuvél í lok síðasta árs og Sigurður vill ráðast í frekari fjárfestingar svo að fyrirtækið hafi svigrúm til að sækja á stærri markaði.
„Það eru ákveðin tækifæri sem bjóðast okkur núna og við þurfum að fiska eftir þeim. Það eru ákveðnir markaðir sem við höfum ekki náð að sækja á,“ segir Sigurður. Hann nefnir í þeim efnum að tækifæri séu til staðar á Bandaríkjamarkaði og í Asíu. Þá hafi töluverð sala hafi verið í Rússlandi í gegnum tíðina en hún sé nú í mýflugumynd. „Þetta eru markaðir sem gætu vaxið hratt.“
Hann bætir við að framleiðendur lopavara hafi verið að vakna upp aftur og að það reynst strembið verkefni að koma þeim aftur að. Því sé áríðandi að auka framleiðslu eins og kostur gefst og er félagið nú með til skoðunar er að byrja með næturvaktir. Framleiðsla Ístex, sem fer fram í Mosfellsbæ, var aukin um rúm 130 tonn af handprjónabandi á síðasta ári.
Ásamt meiri eftirspurn í handprjónaband þá tvöfaldaðist sala á sængum, sængurull og Lopiloft ullarkembunni á síðasta ári. Teppasala lifnaði við í byrjun sumars og náði hámarki í september þegar allar vörulínur seldust upp. Sigurður bendir þó á að fjöldi teppa, sem Ístex lætur framleiða í Litháen, hafi ekki verið í sama stíl og áður.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .