Ísland og Svíþjóð eru meðal þeirra landa sem hafa einstaka möguleika til að framleiða hreina orku með jarðhita, vatnsafli og kjarnorku.
Þrátt fyrir það segir sænski fræðimaðurinn Johan Norberg að þessi lönd virðist vera að refsa sjálfum sér fyrir sína eigin orkunotkun í stað þess að nýta sér forskotið til fulls.
„Vandinn við rafmagn er ekki rafmagnið sjálft, heldur þau jarðefnaeldsneyti sem notuð eru til að framleiða það,“ segir Norberg í samtali við Viðskiptablaðið.
„Þess vegna hef ég aldrei skilið af hverju lönd með gnægð jarðhita, eins og Ísland, og vatnsafl og kjarnorku, eins og Svíþjóð, séu að refsa sjálfum sér fyrir orkunotkun sína. Það er næstum eins og við viljum þjást í gegnum þessa umbreytingu. Þvert á móti ættum við að auka orkuframleiðslu okkar og þróa betri og ódýrari tækni til þess og þannig vera öðrum löndum fyrirmynd,“ segir Norberg
Spurður um dæmi um þar sem efnahagslegur vöxtur hefur leitt til bættra umhverfismála, segir Norberg ljóst að ríkustu löndin séu í mun betri stöðu til að bæta umhverfið en önnur.
„Ég er ánægður með þessa spurningu, því mannkynið hefur nýlega náð hápunkti mengunar samkvæmt gögnum frá Our World in Data við Oxford-háskóla. Frá árinu 2010 hafa alþjóðlegar útblásturstölur fyrir brennisteinsdíoxíð minnkað um meira en 30 prósent, kolmónoxíð um nærri 20 prósent, sótagnir um 14 prósent og köfnunarefnisoxíð um 11 prósent. Þetta er gríðarlega mikilvægt – eftir að hafa aukist gríðarlega í 300 ár minnkar mengunin nú skyndilega,” segir Norberg.
Hann segir jafnframt að það sé engin tilviljun að lönd með mikinn hagvöxt og öfluga nýsköpun séu að leiða þessa þróun.
„Nú sjáum við um 40 lönd draga úr losun CO2 í algjörum tölum. Enn og aftur: Það eru ríkustu, frjálsustu og kapítalískustu hagkerfin. Það er dýrt að bjarga heiminum, svo við þurfum mikið fjármagn. Þegar þessar grænu tæknilausnir verða síðan framleiddar á hagkvæmari hátt, dreifast þær til fátækari landa.“
Ísland hefur alla burði til að leiða grænu orkubyltinguna að mati Norbergs. Hann segir að landið ætti ekki að skammast sín fyrir mikla orkunotkun ef hún kemur frá hreinum orkugjöfum. Þvert á móti ætti Ísland að nýta sér þessa stöðu til að þróa tæknilausnir og auka útflutning á grænni orku og þekkingu.
Ísland ætti að vera í fremstu röð í þessari þróun – ekki með því að draga úr orkunotkun, heldur með því að sýna heiminum hvernig hreina orkuframleiðslu er hægt að stækka og bæta, segir Norberg að lokum.