Það hefur verið gríðarlega mikil sala hjá okkur undanfarin tvö ár og er enn. Það hefur því skapast mikill skortur á eignum hér eins og víðast hvar á landinu. Ég er búinn að vera í þessu í nærri 30 ár, farið í gegnum hæðir og lægðir en ég hef aldrei upplifað svona mikinn íbúðaskort,“ segir Arnar Birgisson, framkvæmdastjóri fasteignasölunnar Eignavers. Til samanburðar þá minnist hann þess að mjög mikil sala hafi verið árin 2005-2007 en skorturinn hafi ekki verið jafnmikill og nú.

Í eðlilegu árferði er Eignaver með um 150-200 íbúðir á söluskrá hjá sér en í dag eru þær um 20-30 talsins. Arnar segir þó að eignir séu enn að koma inn á markaðinn en þær seljist einfaldlega jafnharðan. Sem dæmi nefnir hann að nýverið hafi 33 íbúða fjölbýlisblokk verið sett á markaðinn. Íbúðirnar seldust upp á þremur dögum.

Áhuginn nær einnig til nágrannasveitarfélaga Akureyrar að sögn Arnars. Hann finnur fyrir mikilli sölu á Ólafsfirði, Siglufirði og sérstaklega á Dalvík. Einnig sé salan sterk á öðrum svæðum nærliggjandi Akureyri líkt og í Hörgársveit, Hrafnagili, Eyjafjarðarsveit og á Svalbarðseyri. „Það er einfaldlega mikil söluaukning alls staðar í þessum tíu mínútna radíus frá Akureyri,“ segir Arnar.

Spurður um hvernig hljóðið er í tilvonandi kaupendum sem leita til hans, þá viðurkennir Arnar að margir séu stressaðir. Eignaver reynir á móti að auglýsa allar fasteignir vel, bjóða áhugasömum að skoða íbúðirnar og gefa öllum kost á að bjóða í eignirnar. „En þetta er stressandi, já. Ég myndi ekki vilja vera kaupandi á markaðnum í dag.“

Arnar er þó bjartsýnn á að fasteignamarkaðurinn fyrir norðan nái betra jafnvægi á næstunni. Hann hrósar sérstaklega skipulagsyfirvöldum hjá Akureyrarbæ fyrir að bregðast skjótt við þegar eftirspurnin jókst hratt í byrjun faraldurs og fara af stað með ný hverfi sem munu geta tekið við tæplega 3 þúsund manns. „Það var allt sett á fullt að auka framboð á fasteignum til þess að anna þessari eftirspurn. Það eru allir að vinna að sama markmiði, að fjölga íbúðum og maður finnur ekki fyrir neinni togstreitu á milli aðila. Mér finnst það svo rosalega jákvætt. Það er magnað að upplifa þetta,“ segir Arnar.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Fasteignamarkaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .