Hið Íslenska Reðasafn ehf., sem rekur samnefnt safn á Hafnartorgi, hagnaðist um 138 milljónir króna á síðasta ári samanborið við tæplega 80 milljóna hagnað árið 2022.

Stjórn félagsins lagði til að greiddur yrði út hagnaður að fjárhæð 120 milljónir í ár, að því er segir í ársreikningi félagsins.

Tekjur Reðasafnsins jukust um 43,8% milli ára og námu 461 milljón króna í fyrra. Rekstrarhagnaður (EBIT) fór úr 97,7 milljónum í 167,6 milljónir milli ára. Ársverk voru 12 í fyrra.

Reðasafnið flutti á Hafnartorg árið 2020 eftir að hafa verið á Laugavegi 116 í nærri áratug. Safnið var þar áður rekið á Húsavík en starfsemin var færð í bæinn að frumkvæði Hjartar Gísla Sigurðssonar, syni stofnandans Sigurðar Hjartarsonar, sem tók við safninu árið 2011.

Safnið samanstendur af yfir 300 sýningargripum frá 120dýrategundum, að því er segir á heimasíðu safnsins.

Samkvæmt heimasíðu Reðasafnsins telur það nú 217 reði og reðurhluta af nálega öllum land- og sjávarspendýrum hinnar íslensku fánu.

Eignir félagsins voru bókfærðar á 196 milljónir króna og eigið fé var 152 milljónir í lok síðasta árs. Hjörtur Gísli Sigurðsson reðurfræðingur er aðaleigandi félagsins með 80% hlut.