Eftir fremur hóflegar lækkanir framan af degi tóku íslensk hlutabréf væna dýfu við opnun markaða vestanhafs.
Þegar þetta er skrifað hefur úrvalsvísitalan OMXI15 lækkað um 3,6% og stendur í 2.544 stigum. Úrvalsvísitalan hefur ekki verið lægri frá því í byrjun október í fyrra.
Hlutabréfaverð félaga með starfsemi í Bandaríkjunum leiða lækkanir er JBT Marel hefur lækkað um rúm 7% það sem af er degi og stendur gengi í 15.400 krónum.
Líftæknilyfjafélagið Oculis, sem er tvískráð hérlendis og í Bandaríkjunum, hefur lækkað um 6,5% og stendur gengið í 2.280 krónum.
Íslenska málmleitarfélagið Amaroq, sem heldur úti víðtækum rannsóknar- og vinnsluheimildum í Grænlandi, hefur lækkað um 5%.
Þá hefur gengi flugfélagsins Play lækkað um tæp 5% í örviðskiptum.