Ís­land mun taka þátt í The World Bank's Enterprise Sur­vey í fyrsta sinn í ár en um er að ræða rannsókn á við­skipta­um­hverfi landsins á vegum Alþjóða­bankans.

Rannsóknin byggir á samtölum við æðstu stjórn­endur mikilvægra fyrir­tækja á Ís­landi en Gallup sér um fram­kvæmdina fyrir hönd Alþjóða­bankans hér­lendis.

Alls verður talað við 360 ís­lensk fyrir­tæki í rannsókninni en þar er aflað upp­lýsinga um þróun einka­geirans, bæði hér innan­lands og á alþjóða­vísu.

Við­skipta­blaðið hefur verið í sam­skiptum við Alþjóða­bankann um fram­kvæmd rannsóknarinnar en í svörum bankans segir að mark­mið rannsóknarinnar sé að veita heildræna greiningu á við­skipta­um­hverfi hverju sinni.

Upp­lýsingarnar sem bankinn safnar verða gerðar opin­berar með nafn­lausum hætti til að vernda svar­endur en sam­kvæmt bankanum geta stjórn­völd nýtt gögnin til að móta stefnu og áætlanir til að ýta undir at­vinnu og hag­vöxt á Ís­landi. Stjórn­völd geti í gögnunum borið kennsl á galla í stefnum sínum og séð mögu­legar leiðir til um­bóta.

„Gögnin frá könnuninni eru einungis greiningar­tæki og ákvörðunar­taka um stefnu er á endanum á hendi stjórn­valda og íbúa hvers lands,“ segir í svörum Alþjóða­bankans.

Um 159 lönd hafa tekið þátt í rannsókninni síðastliðin tuttugu ár og spurði Við­skipa­blaðið af hverju Ís­land er fyrst núna að taka þátt.

Sam­kvæmt Alþjóða­bankanum er það vegna þess að mark­mið rannsóknarinnar var upp­haf­lega að hjálpa minni þróuðum ríkjum að efla við­skipta­um­hverfið sitt.

„Í upp­hafi voru þessi gögn sér­stak­lega mikilvæg fyrir minna þróuð hag­kerfi, einkum þau sem voru í lægri og miðlægri tekju­flokkum. Gögnin voru að mestu notuð til að styðja við rekstrar­störf Alþjóða­bankans. Af þeim sökum voru há­tekjulönd yfir­leitt ekki tekin með, nema þau óskuðu sér­stak­lega eftir því,“ segir í svörum bankans.

Alþjóða­bankinn segir að ný­lega hafi verið ákveðið að út­víkka svið rannsóknarinnar til að styðja við hina svo­kölluðu „Business Rea­dy“-skýrslu.

Sú skýrsla er alþjóð­legt mælitæki þar sem hægt er gera saman­burð milli landa. Að mati Alþjóða­bankans varð því nauð­syn­legt að út­víkka svið rannsóknarinnar.

„Við erum nú að safna gögnum á Ís­landi og öllum öðrum há­tekjulöndum um allan heim,“ segir í svörum bankans.

Við­skipta­blaðið spurði bankann hvernig þessi 360 fyrir­tæki sem taka þátt í rannsókninni væru valin og hvort það væri byggt á stærð eða mikilvægi þeirra fyrir hag­kerfið í heild.

Í svörum bankans segir að mark­miðið sé að sækja töl­fræði­lega áreiðan­leg gögn sem endur­spegla marg­vís­leg ein­kenni einka­geirans á Ís­landi.

„Við náum með því að velja fyrir­tæki af mis­munandi stærðum af handa­hófi í mis­munandi at­vinnu­greinum með það að mark­miði að fá þver­snið af við­skipta­um­hverfi landsins á öllum þessum sviðum. Stærri úrtök eru al­mennt nauð­syn­leg fyrir stærri og þróaðri hag­kerfi. Ís­land, til dæmis, hefur þrjú megin­svæði. Við val á 360 fyrir­tækjunum á Ís­landi var leitast við að endur­spegla efna­hags­lega flækju­stig landsins og þessi þrjú megin­svæði,“ segir í svörum bankans.

Spurt um hvort skatta­um­hverfi Ís­lands sé skoðað sér­stak­lega í rannsókninni segir Alþjóða­bankinn svo vera.

„Skatta­um­hverfið er mikilvægur hluti við­skipta­um­hverfisins. Rannsóknin tekur til ýmissa hliða t.d. skatta­rannsóknar svo sem hversu oft skatt­yfir­völd heimsækja fyrir­tæki til að skoða bók­hald þeirra, hversu mikill tími fer í undir­búning fyrir skatt­skil og inn­heimtu, hversu mikið er stutt við inn­viði og mögu­leika á raf­rænum skatta­skilum og hversu hátt hlut­fall af ár­legum hagnaði sem fer í skatta. Þessir spurningar­liðir hjálpa til við að meta áhrif skatt­um­hverfisins á fyrir­tæki,“ segir í svörum bankans.

Við­skipta­blaðið spurði um eðli spurninga­listans sem fyrir­tæki og stjórn­endur svöruðu og sagði bankinn að sam­hliða því að safna gögnum um við­skipta­um­hverfið hér­lendis væri einnig leitað eftir því að fá skoðanir og upp­lifun stjórn­enda og eig­enda á þeim þáttum sem hamla starf­semi þeirra.

„Spurninga­listinn er nokkuð ítar­legur. Hann beinist að við­skipta­um­hverfinu – þ.m.t. að­gangi að grunninn­viðum (raf­magni, vatni, Inter­neti), að­gangi að fjár­magni, vinnu­reglum, sam­keppni, skatt­lagningu, leyfum og mörgum öðrum þáttum sem geta haft áhrif á starf­semi fyrir­tækja,“ segir í svörum bankans.

Alþjóða­bankinn segir að könnunin safni einnig upp­lýsingum um eigin­leika fyrir­tækjanna sjálfra svo sem sölu, starfs­manna­fjölda og nýsköpun.

„Þetta gerir okkur kleift að meta við­skipta­um­hverfið í sam­hengi við mikilvæga þætti í þróun einka­geirans – svo sem fram­leiðni, vöxt fyrir­tækja og at­vinnu.“

Hægt er að sjá frekari upp­lýsingar um spurningarnar sem lagðar eru fyrir fyrir­tækin hér.