Ísland mun taka þátt í The World Bank's Enterprise Survey í fyrsta sinn í ár en um er að ræða rannsókn á viðskiptaumhverfi landsins á vegum Alþjóðabankans.
Rannsóknin byggir á samtölum við æðstu stjórnendur mikilvægra fyrirtækja á Íslandi en Gallup sér um framkvæmdina fyrir hönd Alþjóðabankans hérlendis.
Alls verður talað við 360 íslensk fyrirtæki í rannsókninni en þar er aflað upplýsinga um þróun einkageirans, bæði hér innanlands og á alþjóðavísu.
Viðskiptablaðið hefur verið í samskiptum við Alþjóðabankann um framkvæmd rannsóknarinnar en í svörum bankans segir að markmið rannsóknarinnar sé að veita heildræna greiningu á viðskiptaumhverfi hverju sinni.
Upplýsingarnar sem bankinn safnar verða gerðar opinberar með nafnlausum hætti til að vernda svarendur en samkvæmt bankanum geta stjórnvöld nýtt gögnin til að móta stefnu og áætlanir til að ýta undir atvinnu og hagvöxt á Íslandi. Stjórnvöld geti í gögnunum borið kennsl á galla í stefnum sínum og séð mögulegar leiðir til umbóta.
„Gögnin frá könnuninni eru einungis greiningartæki og ákvörðunartaka um stefnu er á endanum á hendi stjórnvalda og íbúa hvers lands,“ segir í svörum Alþjóðabankans.
Um 159 lönd hafa tekið þátt í rannsókninni síðastliðin tuttugu ár og spurði Viðskipablaðið af hverju Ísland er fyrst núna að taka þátt.
Samkvæmt Alþjóðabankanum er það vegna þess að markmið rannsóknarinnar var upphaflega að hjálpa minni þróuðum ríkjum að efla viðskiptaumhverfið sitt.
„Í upphafi voru þessi gögn sérstaklega mikilvæg fyrir minna þróuð hagkerfi, einkum þau sem voru í lægri og miðlægri tekjuflokkum. Gögnin voru að mestu notuð til að styðja við rekstrarstörf Alþjóðabankans. Af þeim sökum voru hátekjulönd yfirleitt ekki tekin með, nema þau óskuðu sérstaklega eftir því,“ segir í svörum bankans.
Alþjóðabankinn segir að nýlega hafi verið ákveðið að útvíkka svið rannsóknarinnar til að styðja við hina svokölluðu „Business Ready“-skýrslu.
Sú skýrsla er alþjóðlegt mælitæki þar sem hægt er gera samanburð milli landa. Að mati Alþjóðabankans varð því nauðsynlegt að útvíkka svið rannsóknarinnar.
„Við erum nú að safna gögnum á Íslandi og öllum öðrum hátekjulöndum um allan heim,“ segir í svörum bankans.
Viðskiptablaðið spurði bankann hvernig þessi 360 fyrirtæki sem taka þátt í rannsókninni væru valin og hvort það væri byggt á stærð eða mikilvægi þeirra fyrir hagkerfið í heild.
Í svörum bankans segir að markmiðið sé að sækja tölfræðilega áreiðanleg gögn sem endurspegla margvísleg einkenni einkageirans á Íslandi.
„Við náum með því að velja fyrirtæki af mismunandi stærðum af handahófi í mismunandi atvinnugreinum með það að markmiði að fá þversnið af viðskiptaumhverfi landsins á öllum þessum sviðum. Stærri úrtök eru almennt nauðsynleg fyrir stærri og þróaðri hagkerfi. Ísland, til dæmis, hefur þrjú meginsvæði. Við val á 360 fyrirtækjunum á Íslandi var leitast við að endurspegla efnahagslega flækjustig landsins og þessi þrjú meginsvæði,“ segir í svörum bankans.
Spurt um hvort skattaumhverfi Íslands sé skoðað sérstaklega í rannsókninni segir Alþjóðabankinn svo vera.
„Skattaumhverfið er mikilvægur hluti viðskiptaumhverfisins. Rannsóknin tekur til ýmissa hliða t.d. skattarannsóknar svo sem hversu oft skattyfirvöld heimsækja fyrirtæki til að skoða bókhald þeirra, hversu mikill tími fer í undirbúning fyrir skattskil og innheimtu, hversu mikið er stutt við innviði og möguleika á rafrænum skattaskilum og hversu hátt hlutfall af árlegum hagnaði sem fer í skatta. Þessir spurningarliðir hjálpa til við að meta áhrif skattumhverfisins á fyrirtæki,“ segir í svörum bankans.
Viðskiptablaðið spurði um eðli spurningalistans sem fyrirtæki og stjórnendur svöruðu og sagði bankinn að samhliða því að safna gögnum um viðskiptaumhverfið hérlendis væri einnig leitað eftir því að fá skoðanir og upplifun stjórnenda og eigenda á þeim þáttum sem hamla starfsemi þeirra.
„Spurningalistinn er nokkuð ítarlegur. Hann beinist að viðskiptaumhverfinu – þ.m.t. aðgangi að grunninnviðum (rafmagni, vatni, Interneti), aðgangi að fjármagni, vinnureglum, samkeppni, skattlagningu, leyfum og mörgum öðrum þáttum sem geta haft áhrif á starfsemi fyrirtækja,“ segir í svörum bankans.
Alþjóðabankinn segir að könnunin safni einnig upplýsingum um eiginleika fyrirtækjanna sjálfra svo sem sölu, starfsmannafjölda og nýsköpun.
„Þetta gerir okkur kleift að meta viðskiptaumhverfið í samhengi við mikilvæga þætti í þróun einkageirans – svo sem framleiðni, vöxt fyrirtækja og atvinnu.“
Hægt er að sjá frekari upplýsingar um spurningarnar sem lagðar eru fyrir fyrirtækin hér.