Vefmiðillinn Simple Flying birti nýlega grein um íslenska flugfélagið Íslandsflug þar sem farið er yfir þrettán ára sögu flugfélagsins áður en það sameinaðist við Air Atlanta.
Blaðamaðurinn spyr í fyrirsögn greinarinnar „Hvað varð um íslenska flugfélagið Íslandsflug?“
Í greininni er sagt að Íslandsflug hafi hafið rekstur sinn árið 1991 sem leiguflugfélag með höfuðstöðvar í Reykjavík en sameinaðist svo Air Atlanta árið 2005. Flugfélagið er sagt hafa lagt grunninn að því flugfélagi sem Air Atlanta er í dag.
Íslandsflug varð til árið 1991 þegar Flugtak og Arnarflug Innanlands sameinuðust. Það síðarnefnda hafði verið starfrækt frá 1976 en varð svo gjaldþrota í október 1990. Á níunda áratugnum hafði flugfélagið verið eini samkeppnisaðili Flugleiða og hafði í flota sínum De Havilland Twin Otter, Cessna Titan og Cessna Conquest til afnota.
Þegar Íslandsflug fór í loftið auglýsti flugfélagið til farþega og var það með tvær Beech 99 flugvélar og tvær Piper Chieftan vélar, auk Twin Otter vélarinnar frá fyrra flugfélagi.
Árið 1994 vann Íslandsflug samning við DHL til að hefja fraktflug frá Reykjavíkur til East Midlands flugvallarins í Bretlandi. Árið 1997 tók flugfélagið svo á móti 28 ára gamalli Boeing 737-200 flugvél sem gerði flugfélaginu kleift að fljúga farþega að degi til og frakt að nóttu til.
Um sumarið 1998 var Boeing 737 vélin staðsett í Manchester of Dublin, þar sem hún ferjaði farþega á milli í leiguflugi. Önnur 737 vél myndi síðan bætast við í flotann í lok 1998.
Árið 2005 sameinuðust Íslandsflug og Air Atlanta og sagði Hannes Hilmarsson, þáverandi forstjóri Air Atlanta, í samtali við Viðskiptablaðið að sú ákvörðun hafi reynst erfið. „Þá var tveimur ólíkum félögum steypt saman og úr varð stærsta flugfélag á Íslandi með um 50 vélar af 10 mismunandi tegundum,“ segir Hannes.