Alvotech hefur gert langtímasamning við „leiðandi innkaupaaðila lyfja í Bandaríkjunum“ um sölu og markaðssetningu á adalimumab-ryvk, fyrstu líftæknilyfjahliðstæðunni í háum styrk með útskiptanleika við Humira, sem var nýlega samþykkt af Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna (FDA).

„Við erum gríðarlega ánægð með þennan samning, en hann er í samræmi við væntingar okkar við gerð afkomuspár Alvotech fyrir árið 2024. Með þessum samningi mun Alvotech stuðla að auknu aðgengi sjúklinga að hagkvæmari heilbrigðisþjónustu á stærsta lyfjamarkaði heims,“ segir Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar áréttar Alvotech að engin breyting verði á samstarfi fyrirtækisins við Teva Pharmaceuticals. Teva sé stærsta fyrirtæki á sínu sviði í Bandaríkjunum og markaðssetur líftæknilyfjahliðstæður Alvotech á þeim markaði.

Alvotech upplýsti í byrjun mánaðar að félagið væri komið langt í viðræðum um sölusamning við stóran markaðsaðila á bandaríska lyfjamarkaðnum varðandi sölu á AVT 02 eða Simlandi, hliðstæðu Alvotech við Humira (adalimumab) í háum styrk með útskiptileika, í Bandaríkjunum.

„Við teljum að þessi samningur geti reynst byltingarkenndur (e. transformative) í að gera AVT 02 aðgengilegt á bandaríska markaðnum,“ sagði Anil Okay, framkvæmdastjóra viðskipta Alvotech, í kynningu fyrir fjárfesta þann 3. apríl sl.

Aðilar sem veita heilbrigðistryggingar í Bandaríkjunum, opinberu heilbrigðistryggingafélögin s.s Medicare og Medicaid, einkarekin tryggingafélög eða í einhverjum tilvikum stórir atvinnurekendur, semja í flestum tilvikum ekki um innkaup lyfja beint við lyfjafyrirtæki. Því starfa umræddir innkaupaaðilar sem milliliðir í viðskiptum við lyfjafyrirtækin.

Lyfjafyrirtæki eins og Alvotech og Teva, samstarfsaðili Alvotech í Bandaríkjunum, semja því við stóra innkaupaaðila en þau fyrirtæki sem veita almenningi heilbrigðistryggingaþjónustu eru endanlegur greiðandi (e. payor).