Tap Alvotech á árinu 2023 nam 551,7 milljónum Bandaríkjadala sem samsvarar 75 milljörðum króna á gengi dagsins. Mun það vera sambærilegt tap og árið 2022 þegar félagið skilaði 513,6 milljóna dala tapi sem samsvaraði 73 milljörðum á þáverandi gengi.
Heildartekjur líftæknilyfjafyrirtækisins á árinu námu 93,4 milljónum dala sem samsvarar um 13 milljörðum íslenskra króna, sem er 10% aukning frá fyrra ári.
Mikil tekjuaukning milli ára
Heildartekjur af vörusölu nærri tvöfölduðust milli ára, voru 48,7 milljónir dala árið 2023, samanborið við 24,8 milljónir dollara á fyrra ári.
Tekjur Alvotech á fjórða ársfjórðungi námu 18,9 milljónum dollara, sem er 37% aukning frá sama tímabili árið áður.
„Við fögnum því að sala er hafin á öðru lyfi Alvotech, líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara (ustekinumab) undir vörumerkinu Jamteki í Kanada. Erum við jafnframt spennt að hefja markaðssetningu lyfsins á stórum alþjóðlegum mörkuðum á öðrum og þriðja ársfjórðungi. Leyfisveiting Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna (FDA), sem gefur rétt til markaðssetningar á Simlandi, hliðstæðu í háum styrk með útskiptileika við Humira var afar mikilvægur áfangi. Við teljum okkur bjóða lyf með einstaka eiginleika á þessum markaði, og teljum að það geti valdið straumhvörfum, þar sem markaðurinn fyrir adalimumab í Bandaríkjunum er enn í mótun,” segir Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech, í uppgjörinu.
Heildarskuldir nálgast milljarð dala
Félagið var með 11,2 milljónir dala í lausu fé við árslok að undanskildum 26,2 milljónum dala í bundnu fé.
Þá námu heildarskuldir félagsins 960,2 milljónum dala sem samsvarar 130 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins. Samkvæmt ársuppgjöri nemur næsta árs afborgun af skuldinni 38 milljónum dala. Heildarskuldir félagsins voru um 764,6 milljónir dala í lok árs 2022.
Að teknu tilliti til hlutafjáraukningar að upphæð um 166 milljónir dala af sölu 10.127.132 almennra hluta í félaginu, átti félagið um 172 milljónir dollara í lausu fé pro forma við árslok.
„Við höfum einnig náð nokkrum mikilvægum áföngum í klínískum rannsóknum. Jákvæðar niðurstöður liggja fyrir úr rannsókn á klínískri virkni fyrirhugaðrar hliðstæðu við Eylea (aflibercept) og á lyfjahvörfum fyrirhugaðrar líftæknilyfjahliðstæðu við Simponi og Simponi Aria (golimumab) og fyrirhugaðrar hliðstæðu við Prolia og Xgeva (denosumab). Þetta undirstrikar árangur markvissrar stefnu Alvotech í verkefnavali og kosti þess að hafa alla þróun og framleiðslu á einni hendi,” segir Róbert.
Rannsóknar- og þróunarkostnaður jókst
Gengistap Alvotech í fyrra nam 5,2 milljónum dala samanborið við 10,6 milljónir dala gengishagnað á árinu 2022, sem rekja má til breytinga á gengi krónu og evru gagnvart dal.
Rannsóknar- og þróunarkostnaður var 210,8 milljónir dala á árinu 2023, samanborið við 180,6 milljónir dala á fyrra ári.
Stjórnunarkostnaður minnkaði töluvert á milli ára og fór úr 186,7 milljónum dala í 76,6 milljónir árið 2023.