Tap Al­vot­ech á árinu 2023 nam 551,7 milljónum Banda­ríkja­dala sem sam­svarar 75 milljörðum króna á gengi dagsins. Mun það vera sam­bæri­legt tap og árið 2022 þegar fé­lagið skilaði 513,6 milljóna dala tapi sem sam­svaraði 73 milljörðum á þá­verandi gengi.

Heildar­tekjur líf­tækni­lyfja­fyrir­tækisins á árinu námu 93,4 milljónum dala sem sam­svarar um 13 milljörðum ís­lenskra króna, sem er 10% aukning frá fyrra ári.

Mikil tekjuaukning milli ára

Heildar­tekjur af vöru­sölu nærri tvö­földuðust milli ára, voru 48,7 milljónir dala árið 2023, saman­borið við 24,8 milljónir dollara á fyrra ári.

Tekjur Al­vot­ech á fjórða árs­fjórðungi námu 18,9 milljónum dollara, sem er 37% aukning frá sama tíma­bili árið áður.

„Við fögnum því að sala er hafin á öðru lyfi Al­vot­ech, líf­tækni­lyfja­hlið­stæðu við Stelara (us­tekinu­mab) undir vöru­merkinu Jamteki í Kanada. Erum við jafn­framt spennt að hefja markaðs­setningu lyfsins á stórum al­þjóð­legum mörkuðum á öðrum og þriðja árs­fjórðungi. Leyfis­veiting Mat­væla- og lyfja­stofnunar Banda­ríkjanna (FDA), sem gefur rétt til markaðs­setningar á Simlandi, hlið­stæðu í háum styrk með út­skipti­leika við Humira var afar mikil­vægur á­fangi. Við teljum okkur bjóða lyf með ein­staka eigin­leika á þessum markaði, og teljum að það geti valdið straum­hvörfum, þar sem markaðurinn fyrir adali­mu­mab í Banda­ríkjunum er enn í mótun,” segir Róbert Wess­man, stjórnar­for­maður og for­stjóri Al­vot­ech, í upp­gjörinu.

Heildarskuldir nálgast milljarð dala

Fé­lagið var með 11,2 milljónir dala í lausu fé við árs­lok að undan­skildum 26,2 milljónum dala í bundnu fé.

Þá námu heildar­skuldir fé­lagsins 960,2 milljónum dala sem sam­svarar 130 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins. Sam­kvæmt árs­upp­gjöri nemur næsta árs af­borgun af skuldinni 38 milljónum dala. Heildar­skuldir fé­lagsins voru um 764,6 milljónir dala í lok árs 2022.

Að teknu til­liti til hluta­fjár­aukningar að upp­hæð um 166 milljónir dala af sölu 10.127.132 al­mennra hluta í fé­laginu, átti fé­lagið um 172 milljónir dollara í lausu fé pro forma við árs­lok.

„Við höfum einnig náð nokkrum mikil­vægum á­föngum í klínískum rann­sóknum. Já­kvæðar niður­stöður liggja fyrir úr rann­sókn á klínískri virkni fyrir­hugaðrar hlið­stæðu við Ey­lea (afli­bercept) og á lyfja­hvörfum fyrir­hugaðrar líf­tækni­lyfja­hlið­stæðu við Simponi og Simponi Aria (go­limu­mab) og fyrir­hugaðrar hlið­stæðu við Proli­a og X­geva (denosumab). Þetta undir­strikar árangur mark­vissrar stefnu Al­vot­ech í verk­efna­vali og kosti þess að hafa alla þróun og fram­leiðslu á einni hendi,” segir Róbert.

Rannsóknar- og þróunarkostnaður jókst

Gengi­stap Al­vot­ech í fyrra nam 5,2 milljónum dala saman­borið við 10,6 milljónir dala gengis­hagnað á árinu 2022, sem rekja má til breytinga á gengi krónu og evru gagn­vart dal.

Rann­sóknar- og þróunar­kostnaður var 210,8 milljónir dala á árinu 2023, saman­borið við 180,6 milljónir dala á fyrra ári.

Stjórnunar­kostnaður minnkaði tölu­vert á milli ára og fór úr 186,7 milljónum dala í 76,6 milljónir árið 2023.