Alvotech áætlar að mögulegir tollar á innflutning lyfja til Bandaríkjanna hefðu hverfandi áhrif á tekjur félagsins af sölu lyfja á árinu.

„Vöruinnflutningur frá Íslandi fellur undir lægsta toll til Bandaríkjanna, sem er 10%, en lyf bera enn engan toll. Sambærilegur 10% tollur á lyf myndi aðeins hækka innflutningsverð á lyfjum frá Alvotech til Bandaríkjanna um sem nemur innan við 1% af áætluðum heildartekjum Alvotech af lyfjaútflutningi á árinu,“ segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Alvotech segir að samkvæmt gildandi samningum við samstarfsaðila, sem sjá um sölu á hverju markaðssvæði, beri þeir allan flutningskostnað og kostnað vegna tolla eða annarra innflutningsgjalda sem kunna að leggjast á vöruna.

Eins og kunnugt er, var innflutningur á vörum frá Íslandi feldur undir lægsta stig nýju tollanna í Bandaríkjunum sem boðaðir voru í byrjun apríl, eða 10%. Viðskiptablaðið greindi í kjölfarið frá því að Alvotech hefði fengið það staðfest frá bandarískum stjórnvöldum að lyf séu undanskilin bæði almenna 10% tollinum og gagnkvæmum verndartollum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði hins vegar í kjölfarið að til stæði að leggja tolla á innflutt lyf, með það að markmiði að færa lyfjaframleiðslu í auknum mæli aftur til Bandaríkjanna.

„Ef settur yrði á 10% tollur síðari hluta ársins, myndi innflutningsverð á lyfjum frá Alvotech til Bandaríkjanna hækka um minna en 1% af áætluðum heildartekjum Alvotech af sölu lyfja á árinu. Þessi kostnaður félli einnig ekki á Alvotech,“ segir Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech, í tilkynningu félagsins.

„Ef við lítum til lengri tíma, að teknu tilliti til þeirra lyfja sem við hyggjumst setja á markað á næstu árum og aukinnar sölu, myndi áhrif slíkra tolla í Bandaríkjunum enn nema aðeins örfáum prósentum af áætluðum heildartekjum okkar af lyfjasölu.“

Telja litlar líkur á hærri tollum á Ísland

Hann segir að þar sem vöruskiptajöfnuður milli landanna sé Bandaríkjunum í hag, og hagstæður vöruskiptajöfnuður er höfuðmarkmið tollastefnunnar, telji stjórnendur Alvotech litlar líkur á að hærri tollur verði lagður á innflutning lyfja frá Íslandi en á aðrar vörur.

„Þá bendir margt til þess að stjórnvöld vestra muni hafa í huga að hliðstæður gegna mikilvægu hlutverki í að auka aðgengi sjúklinga að líftæknilyfjum og að lækka lyfjakostnað.“