Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gærkvöldi að 10% lágmarkstollur yrði lagður á allar innfluttar vörur til Bandaríkjanna, þar á meðal frá Íslandi.

Íslenska líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech mun þó ekki lenda í þessum tollum þrátt fyrir að öll lyfjaframleiðsla félagsins fari fram hérlendis.

Benedikt Stefánsson, forstöðumaður fjárfestatengsla og samskiptasviðs Alvotech, staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið.

„Við höfum fengið það staðfest frá bandarískum stjórnvöldum að lyf séu undanskilin bæði almenna 10% tollinum og gagnkvæmum verndartollum. Það fellur því enginn tollur á lyf, þannig að yfirlýsingin í gær mun ekki hafa nein áhrif hafa á okkar samkeppnisstöðu á bandaríska markaðnum,“ segir Benedikt.

Verðmæti útfluttra lyfja frá Alvotech til Bandaríkjanna á síðasta ári nam tæpum 27 milljörðum króna, eða um 25% af verðmæti alls vörútflutnings frá Íslandi til Bandaríkjanna

„Það má líta á það sem ákveðinn varnarsigur að þetta stór hluti vöruútflutnings héðan til Bandaríkjanna sé undanþeginn tollum. Þetta undirstrikar líka hversu mikilvæg fjárfesting í fyrirtækjum eins og Alvotech er, til að fjölga eggjunum í útflutningskörfunni,“ segir Benedikt.

Gríðarlega mikilvæg undanþága

Alvotech er nú með tvö lyf á markaði í Bandaríkjunum, hliðstæðu við líftæknilyfið Humira og hliðstæðu við líftæknilyfið Stelara, sem kom á markað þar í febrúar sl.

Félagið hefur sótt um markaðsleyfi í Bandaríkjunum fyrir þrjú lyf til viðbótar, sem gert er ráð fyrir að komi á markað þar snemma á næsta ári. Það eru hliðstæður við líftæknilyfin Simponi Aria, Eylea og Prolia/Xgeva.

Samkvæmt uppgjöri Alvotech fyrir árið 2024 námu heildartekjur félagsins 492 milljónum bandaríkjadala, sem samsvarar um 65 milljörðum króna á gengi dagsins og er um 427% aukning frá fyrra ári.

Sérstaklega var mikil aukning í sölutekjum, sem námu 273 milljónum dala, um 36 milljörðum króna, en sölutekjurnar hækkuðu um 462% milli ára.

Sú ákvörðun Bandaríkjastjórnar að undanskilja lyf og lækningarvörur frá innflutningstollum gæti reynst Íslandi mjög vel. Undir þá skilgreiningu falla bæði lyf framleidd af Alvotech og Oculis, vörur á borð við sáraumbúðirnar sem Kerecis framleiðir, stoðtæki Össurar og svefnrannsóknatæki Nox Medical.

Um er að ræða stærsta einstaka vöruflokkinn í vöruútflutningi Íslands til Bandaríkjanna í fyrra var tæki og vörur til lækninga.

Vöruflokkurinn nam um 39 milljörðum króna af 110 milljarða króna heildarvöruútflutningi til Bandaríkjanna.

Bandaríkin eru næststærsta viðskiptaþjóð Íslands þegar kemur að okkar vöruútflutningi.

Það litast hins vegar af hinni „margfrægu Hollands-skekkju“, sem skýrist af því að stór hluti af okkar vöruútflutningi fer til Rotterdam og þaðan til annarra Evrópuríkja, Asíu og jafnvel vestur um haf.

Úr erindi Péturs Óskarssonar, framkvæmdastjóra Íslandsstofu, á ársfundi Íslandsstofu í síðustu viku.