Alvotech býður í dag til vígsluhátíðar Frumunnar, sem er ný miðstöð líftækni á Íslandi. Félagið segir markmið Frumunnar vera að styðja við nýsköpun, rannsóknir, atvinnuþróun og nánari samvinnu vísindamanna og frumkvöðla í líftækni á Íslandi.
Upphaflega hýsti húsnæði Frumunnar við Klettagarða í Sundahöfn rannsóknar- og þróunardeild Alvotech, sem nú hefur flutt í höfuðstöðvar félagsins í Vatnsmýri.
„Í húsnæðinu hefur verið komið upp fullkominni aðstöðu fyrir rannsóknarstofu Háskóla Íslands í iðnaðarlíftækni, nýsköpunar- og þróunarsetur Alvotech, Alvotech Akademíuna og fyrsta líftækniklasann hér á landi.“
„Við viljum að Fruman verði lifandi samfélag nemenda, vísindamanna og frumkvöðla, vettvangur þar sem sérfræðingar úr ólíkum áttum geta miðlað þekkingu og lagt grunninn að framtíðarvexti líftækni á Íslandi,” segir Róbert Wessman, stofnandi, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech.
„Við bindum miklar vonir við að samfélagið sem þarna myndast geti af sér nýja sprota í líftækniiðnaðinum og efli nýsköpun og þekkingu í greininni hér á landi. Með því að bjóða fram þessa fullkomnu aðstöðu fyrir vísindamenn við Háskóla Íslands og nemendur í Alvotech Akademíunni, stuðlum við einnig að auknu framboði af hæfu starfsfólki í þróun og framleiðslu líftæknilyfja.”
Alvotech segir Frumuna vera nýjung hér á landi en hún eigi sér ýmsar erlendar fyrirmyndir. Í mörgum nágrannalandanna hafi sambærilegri aðstöðu verið komið á fót í nánum tengslum við fyrirtæki í lyfjaiðnaði, líftækni og lífvísindum, með þátttöku rannsóknarháskóla.
Alvotech hefur þróað verkefnið í samráði við Háskóla Íslands. Félagið og háskólinn hafa um árabil átt nána samvinnu um námsleið í iðnaðarlíftækni, þar sem Alvotech hefur meðal annars lagt til kennara og tækjabúnað.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141266.width-1160.jpg)
Fruman byggir á fjórum meginstoðum:
Rannsóknarstofa í iðnaðarlíftækni
Aðstaða fyrir kennslu nemenda við námsleið Háskóla Íslands í iðnaðarlíftækni, þar sem þeir fá raunhæfa þjálfun í notkun nýjustu tækni og vinnubrögðum.
Líftækniklasinn
Ný miðstöð fyrir sprotafyrirtæki í líftækni, sem býðst aðgangur að fullkominni rannsóknaraðstöðu, þekkingu, tengslaneti og handleiðslu sérfræðinga. Byrjað verður að taka við umsóknum um aðstöðu í líftækniklasanum í maí nk.
Alvotech Akademían
Skóli þar sem nýir starfsmenn Alvotech stunda fræðilegt nám og fá verklega þjálfun í vinnubrögðum við framleiðslu líftæknilyfja og hliðstæða þeirra.
Nýsköpunarsetur Alvotech
Aðstaða fyrir rannsóknir og þróun á nýjum aðferðum, ferlum og tækni til framleiðslu á líftæknilyfjum.
Opnunarhátíðin fer fram í húsnæði Frumunnar að Klettagörðum 6, við Sundahöfn og hefst kl. 16:00 miðvikudaginn 12. febrúar. Meðal þeirra sem flytja ávörp við opnunina er Dr. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech og Joseph McClellan, framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar hjá Alvotech.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141267.width-1160.jpg)