Íslenska málmleitarfélagið Amaroq Minerals hefur fengið nýtt rannsóknarleyfi í Johan Dahl Land í Suður-Grænlandi.
Samkvæmt tilkynningu frá félaginu mun hið nýfengna leyfi til muna auka umsvif félagsins á koparbelti Suður-Grænlands. Þá styður leyfið við núverandi eignasafn félagsins á svæðinu, sem „sýnt hefur fram á mikla möguleika á bergmyndunum í kopar og gulli.“
Johan Dahl Land-leyfið nær yfir 666,51 km² svæði, sem eykur stærð eignasafns Amaroq upp í 6.800,1 km² en í gegnum dótturfélag sitt Gardaq, heldur Amaroq nú á leyfum sem ná yfir 3.147 km2 af koparbelti Suður-Grænlands.
„Veiting Johan Dahl Land-leyfisins, ásamt jákvæðum niðurstöðum úr fyrstu rannsóknum, styður við markmið Amaroq um að opna fyrir hina miklu möguleika Grænlands þegar kemur að því að finna svokallaða „strategic metals“. Koparbelti Suður-Grænlands er mikilvægt rannsóknarsvæði, og vinna okkar í Ukaleq hefur þegar sýnt fram á möguleika á stórum málmfundum. Fram undan eru spennandi tímar við að byggja ofan á þessar uppgötvanir og þá sterku stöðu sem Amaroq hefur í leit og þróun á málmum í Grænlandi,” segir James Gilbertson, yfirmaður rannsókna hjá Amaroq.
Þá greinir Amaroq frá því að fyrstu rannsóknir á hinu nýskilgreinda Ukaleq-leyfi greindu styrkleika gulls allt að 12,3 g/t Au og kopar allt að 5,1% Cu, en málmarnir eru í kvars- og koparsúlfíð-lögum.
Kopar-gull frávik voru greind á svæði sem nær yfir allt að 19 km², sem styður við frekari rannsóknarmöguleika svæðisins á stærri skala.
„Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um tilvist súlfíðríks „epithermal“ kerfis sem fyrirfinnst innan stórra koparbelta á heimsvísu og er enn ein vísbendingin um að koparbelti Suður-Grænlands geti verið meðal slíkra belta.
Þessar niðurstöður liggja á helstu jarðfræðisprungum þar sem málmar geta flætt um og styðja við jarðfræðilegt líkan suðurgrænlenska koparbeltisins,“ segir í kauphallartilkynningu.