Úrvalsvísitalan hækkaði lítillega í 3,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Kviku banka sem hækkuðu um 0,4% í 1,1 milljarðs króna viðskiptum. Þar af voru 420 milljóna króna viðskipti rétt fyrir lokun Kauphallarinnar. Gengi Kviku banka stendur nú í 13,9 krónum á hlut.

Næst mesta veltan, eða um einn milljarður króna, var með hlutabréf Marles sem hækkuðu um 0,5%. Hlutabréfaverð Marels stendur nú í 429 krónum á hlut. Stjórn Marels tilkynnti fyrir opnun Kauphallarinnar í morgun um að hún hefði hafnað viljayfirlýsingu JBT Corporation varðandi mögulegt tilboð í öll hlutabréf Marel.

Átta félög aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins. Málmleitarfyrirtækið Amaroq Minerals hækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,9% í 283 milljónum króna viðskiptum. Hlutabréfaverð Amaroq stendur í 105,5 krónum á hlut og hefur nú hækkað um 50% á einu ári. Gengi félagsins hefur aldrei verið hærra.

Ellefu félög lækkuðu í viðskiptum dagsins. Þar af lækkaði gengi Alvotech mest eða um 1,8% í hundrað milljóna veltu. Íslenski líftæknilyfjafyrirtækið birtir uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í dag.