Streymisveitan Amazon Prime Video hefur tryggt sér leyfi fyrir framleiðslu á heimildarmynd um fyrrum og verðandi forsetafrú, Melaníu Trump. Myndin verður þá gerð í samstarfi við hana og tekur hún þátt í framleiðslunni.
Tökur á heimildarmyndinni hófust í desember, mánuði eftir kosningasigur Donalds Trumps. Þá er gert ráð fyrir að myndin verði tilbúin seinni hluta 2025.
Tilkynningin frá Amazon kemur í kjölfar annarrar tilkynningar þar sem Jeff Bezos, stofnandi Amazon, mun gefa eina milljón dala í stofnsjóð Trumps. Bezos virðist þá vera að koma sér í gott samband við verðandi forseta.
Heimildarmyndinni verður leikstýrt af Brett Ratner en hann leikstýrði meðal annars Rush Hour og Red Dragon. Hann er þó umdeildur í Hollywood en árið 2011 þurfti hann að skilja við hlutverk sitt við Óskarsverðlaunin eftir að hafa látið neikvæð ummæli falla um samkynhneigða.