Björgólfur Guð­munds­son at­hafna­maður lést sunnu­daginn 2. febrúar 2025 á 85. aldursári.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá aðstandendum.

Hann fædd­ist 2. janú­ar 1941, son­ur hjón­anna Krist­ín­ar Davíðsdótt­ur hús­móður og Guðmund­ar Ólafs­son­ar bíl­stjóra og ólst upp ásamt fimm systkin­um á Fram­nes­vegi. Hann stundaði íþrótt­ir með KR og gekk í Mela­skóla, Gagn­fræðaskól­ann við Hring­braut og síðan Versl­un­ar­skól­ann og út­skrifaðist þaðan stúd­ent 1962.

Björgólf­ur stofnaði Dósa­gerðina hf. 1962, en var 1977 ráðinn for­stjóri Haf­skips hf., sem hann stýrði til 1986. Næstu ár starfaði hann einkum í Dan­mörku, en var 1991 ráðinn for­stjóri Gos­an, síðar Vik­ing Brewery. Árið 1995 stofnaði hann drykkja­gerðina Bra­vo í Pét­urs­borg í Rússlandi, m.a. í fé­lagi við son sinn Björgólf Thor. Upp frá því sinnti Björgólf­ur fjár­fest­ing­um og stjórn­ar­setu í fjölda fyr­ir­tækja, þar á meðal Bra­vo In­ternati­onal, Pharmaco, Pri­mex og Balk­an­pharma, en fjár­festi einnig í Árvakri, út­gáfu­fé­lagi Morg­un­blaðsins.

Eftir kaup á Lands­bankanum árið 2003 tók Björgólfur að sér for­mennsku í bankaráði hans til fjár­mála­hrunsins 2008. Hann var for­maður stjórnar Portusar hf. sem hannaði og hóf byggingu Hörpu og aða­l­eig­andi fót­boltafélagsins West Ham í Lundúnum 2006-2009.

Björgólfur tók ríkan þátt í félags­málum, gegndi marg­vís­legum trúnaðar­störfum fyrir Sjálf­stæðis­flokkinn, var um hríð for­maður Varðar, einn stofn­enda SÁÁ og for­maður um ára­bil, for­maður knatt­spyrnu­deildar KR 1998-2002 og lengi aðal­ræðis­maður Búlgaríu. Björgólfur studdi marg­vís­leg vel­ferðar-, mennta- og menningar­mál, m.a. með stofnun Minningar­sjóðs um Margréti dóttur sína. Hann var sæmdur fálka­orðunni 2005.

Árið 1963 gekk Björgólfur að eiga Þóru Hall­gríms­son (f. 1930, d. 2020) og áttu þau saman fimm börn, Friðrik Örn Clausen (látinn), Hall­grím, Margréti (látna), Bentínu og Björgólf Thor. Barna­börn Þóru og Björgólfs eru 11 og barna­barna­börn jafn­mörg.