Fjárfestingarfélagið Omega ehf, sem er í eigu Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar, fjárfesti á dögunum og kom inn sem nýr hluthafi í sjóðastýringarfyrirtækinu Aldir ehf., samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Andri hefur tekið sæti í stjórn fyrirtækisins.

Fjárfestingarfélagið Omega ehf, sem er í eigu Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar, fjárfesti á dögunum og kom inn sem nýr hluthafi í sjóðastýringarfyrirtækinu Aldir ehf., samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Andri hefur tekið sæti í stjórn fyrirtækisins.

Omega var stærsti hluthafi Kerecis sem selt var til danska fyrirtækisins Coloplast í sumar fyrir 175 milljarða króna. Áætla má að fjárfestingarfélagið hefi fengið ríflega 22 milljarða króna fyrir 12% hlut sinn í Kerecis.

Omega hefur fjárfest í ýmsum sprotafyrirtækjum, fasteignafélaginu Ásbrú og ÍV SIF Equity Farming sem vinnur að því að byggja upp eignasafn í fiskeldi og tengdri starfsemi.

Aldir ehf. var stofnað í árslok 2022 af Arnari Ragnarssyni, Heiðari Inga Ólafssyni og Ara Ólafssyni. Þeir störfuðu áður hjá Stefni, dótturfélagi Arion banka, þar sem þeir leiddu sérhæfðar fjárfestingar félagsins.

Arnar Ragnarsson, Heiðar Ingi Ólafsson og Ari Ólafsson stofnuðu Aldir ehf. um síðustu áramót.
Arnar Ragnarsson, Heiðar Ingi Ólafsson og Ari Ólafsson stofnuðu Aldir ehf. um síðustu áramót.

Heiðar stjórnarformaður

Viðskiptablaðið greindi frá því í vor að Heiðar Guðjónsson, sem lét af störfum sem forstjóri Sýnar sumarið 2022, væri meðal hluthafa í Aldir. Hann er jafnframt stjórnarformaður félagsins.

„Okkar áhersla verður á óskráðar fjárfestingar sem gegna mikilvægu hlutverki á umrótstímum og þegar á móti blæs í hagkerfinu,“ sagði Heiðar við Viðskiptablaðið.

„Fyrirséð er að framboð á fjármagni mun dragast saman á næstunni en tækifærunum fer síst fækkandi. Hér á Íslandi er mikill fjöldi óskráðra félaga í fjölbreyttum atvinnugreinum sem náð hafa töluverðri stærð og hafa möguleika á að vaxa og dafna frekar. Framtakssjóðir geta leitt slík umbreytingarverkefni og þar sem þeir hafa langan líftíma geta þeir siglt gegnum þann óróa sem verður til staðar næstu misserin. Horft fram á veginn vinnur tíminn með fjárfestingum á Íslandi, þar sem hagvöxtur hér hefur verið meiri en í samanburðarríkjum og ekki horfur á að breyting verði þar á.“