Demókratar og Repúblikanar hafa samþykkt 900 milljarða dollara aðgerðapakka til að stemma stigu við áhrif kórónufaraldursins. Fjármagnið á að nýtast bæði heimilum og fyrirtækjum auk þess að greiða fyrir dreifingu á bóluefni gegn COVID-19.

Um er að ræða fyrsta aðgerðapakkann vestanhafs vegna heimsfaraldursins frá því í apríl þar sem 2,2 billjóna dollara aðstoð var samþykkt, að því er segir í frétt New York Times um málið. Þrátt fyrir að umfang aðgerðapakkans sé um 40% af þeirri aðstoð sem barst í apríl er um að ræða einn stærsta aðgerðapakka í sögunni.

Bandaríkjamenn með árstekjur upp að 75 þúsund dollara, andvirði 9,7 milljóna króna, fá 600 dollara styrk eða um 77 þúsund íslenskar krónur. Hluti af fjármagninu verður nýtt til frekari atvinnuleysisbóta en ríflega 280 milljarðar dollara fara til fyrirtækja. Talið er að um 82 milljarðar dollara fari til mennta- og háskóla.