Hugbúnaðarfyrirtækið Annata skilaði 6,4 milljóna dala hagnaði á síðasta ári, eða sem nemur tæpum 870 milljónum króna miðað við gengi Bandaríkjadals í lok árs 2023. Tekjur samstæðu Annata jukust um 14% milli ára og námu 46 milljónum dala á árinu 2023, sem nemur 6,25 milljörðum króna.
Annata þróar og selur viðskiptalausnir byggðar á skýjalausn Microsoft, Azure og tengdum kerfum, fyrir bifreiða- og vinnuvélaiðnaðinn. Fyrirtækið er með langtímaáskriftarsamninga við stórfyrirtæki á borð við Toyota, Volvo, Hitachi og Möller Mobility Group, sem m.a. flytur inn, selur og þjónustar VW, Audi, Skoda og Porche í Noregi.
Framtakssjóðurinn VEX I og meðfjárfestar greiddu 7,4 milljarða króna fyrir helmingshlut í Annata í febrúar 2022. Í ársreikningi VPE – AN, félags VEX I utan um fjárfestinguna í Annata, kemur fram að VEX metur 47% hlut sinn í Annata á 10,1 milljarð. Því metur sjóðurinn Annata nú á 21,5 milljarða króna.
Næststærsti hluthafi Annata er Vendimia ehf., félag Jóhanns Ólafs Jónssonar, eins stofnenda og stjórnarformanns Annata, og eiginkonu hans, Hildar Ástþórsdóttur, sem á 14,4% hlut.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Annata í Viðskiptablaðinu.