Framtakssjóðurinn VEX I og meðfjárfestar greiddu 7,4 milljarða króna fyrir helmingshlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Annata í febrúar. Félagið er því metið á um 15 milljarða króna í viðskiptunum. Viðskiptablaðið sagði frá kaupunum í janúar en kaupverðið fylgdi ekki sögunni.
VEX I lagði tæpa 3,3 milljarða króna í kaupin, en aðrir fjárfestar , sem langflestir eru einnig hluthafar í sjóðnum, yfir 4,1 milljarð. Stærsti fjárfestir hópsins að VEX frátöldum er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins sem leggur fram tæpa 1,3 milljarða króna, en meðal annarra eru þrír aðrir lífeyrissjóðir, tryggingafélagið VÍS og Norvik hf., móðurfélag Byko.
Hlutur lykilstjórnenda yfir 10 milljarðar
Fyrir kaupin var félagið í eigu stofnenda og stjórnenda þess. Stærsti einstaki hluthafinn var félag í eigu forstjórans Jóhanns Ólafs Jónssonar og eiginkonu hans með 28,6% hlut, sem samsvarar 4,3 milljörðum króna miðað við kaupverðið, og félög tengd Birgi Ragnarssyni rekstrarstjóra og Birni Gunnari Karlssyni stjórnanda áttu hvort um sig 21,5% eða um 3,2 milljarða hlut. Sín á milli héldu þau því á yfir 70% hlut upp á hátt í 11 milljarða, en aðrir hluthafar áttu undir 10% hver.
Heimildir Viðskiptablaðsins herma að misjafnt hafi verið hversu mikið fyrrverandi eigendur seldu. Einhverjir hafi selt sig alveg út á meðan aðrir hafi selt minna eins og gefur að skilja, en allir hafi þeir selt eitthvað.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .