APRÓ, móðurfélag upplýsingatæknifyrirtækjanna Andes og Prógramm, hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé Miracle ehf.
Við kaupin verða fyrirtækin þrjú sameinuð undir nafninu APRÓ, en þar munu starfa um 80 sérfræðingar og ársvelta er yfir 2 milljarðar króna, að því er kemur fram í tilkynningu.
Kaupin eru sögð liður í framtíðarsýn APRÓ um að verða öflugt upplýsingatæknifyrirtæki sem veitir víðtæka þjónustu á sviði hugbúnaðarþróunar, gervigreindar, uppbyggingar gagnainnviða og rekstrarþjónustu með áherslu á skýjalausnir.
APRÓ er í meirihlutaeigu leitarsjóðsins Seek, en meðal annarra hluthafa APRÓ eru seljendur og lykilstjórnendur. Aðaleigandi Seek er Leitar I slhf, framtakssjóður sem er í stýringu Leitar Capital Partners, ásamt Hlöðveri Þór Árnasyni, framkvæmdastjóra APRÓ, og meðfjárfestum.
„Markmið APRÓ er að hækka rána á íslenskum upplýsingatæknimarkaði með framúrskarandi þjónustu sem byggir á þekkingu og reynslu. Hér stefnum við saman einvalaliði fagfólks og bjóðum atvinnulífinu upp á spennandi valkost," segir Hlöðver Þór Árnason, framkvæmdastjóri APRÓ.
„Við byggjum á litlum og sérhæfðum teymum, sem ráða við mikinn þróunarhraða. Þau laga sig að högun í tækniumhverfi viðskiptavina og geta verið óháð birgjum, framleiðendum og söluaðilum hugbúnaðar og lausna. Með tilkomu Miracle verður APRÓ eitt öflugasta fyrirtæki landsins á sviði upplýsingatækni og við horfum stolt til framtíðar.“
Miracle mun sameinast Andes og Prógramm undir einu þaki og verða höfuðstöðvarnar í Urðarhvarfi 8b í Kópavogi.
„Með APRÓ erum við að setja saman öflugt fyrirtæki sem við ætlum að efla og stækka enn frekar á komandi árum. Sameinað fyrirtæki ætlar sér að auka samkeppni og vöruframboð á markaði og byggja þar á sérfræðikunnáttu mannauðsins og áratugareynslu af þjónustu á sviði upplýsingatækni. Við höfum miklar væntingar til þessa verkefnis,“ segir Birgir Örn Birgisson, stjórnarformaður APRÓ, Seek og Leitar Capital Partners.