Arctic Adventures tapaði 1,2 milljörðum króna í fyrra og veltan féll um 73% milli ára, úr 6 milljörðum í 1,6. Reksturinn hefur tekið vel við sér í ár og útlit er fyrir ágæta afkomu samkvæmt heimildum blaðsins.

Ferðaþjónustusamstæðan brást við faraldrinum með uppsögnum, verulegum niðurskurði, úrræðum stjórnvalda og frystingu lána, auk þess sem tvö af félögum samstæðunnar, Straumhvarf og Adventure Hotels, sóttu um greiðsluskjól um mitt síðasta ár.

1,1 milljarða afskriftir
Rekstrargjöld námu 1,8 milljörðum samanborið við 5 milljarða árið áður. Kostnaðarverð seldra vara dróst saman um 77% og nam 400 milljónum, launakostnaður féll um 63% og nam 738 milljónum, og annar rekstrarkostnaður tæplega helmingaðist í 632 milljónir. Rekstrartap fyrir afskriftir nam því ríflega 200 milljónum, en afskriftir hátt í 1,1 milljarði króna.

Heildareignir námu 7,5 milljörðum í lok síðasta árs og féllu um 18% milli ára, og eigið fé nam 5,3 milljörðum og samanborið við 6,5 milljarða árið áður. Eiginfjárhlutfall var 70% og hélst óbreytt.

Í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi samstæðunnar kemur fram að „útlit [sé] fyrir að starfsemin sé að færast í eðlilegra horf þó smærri en áður var en muni vaxa jafnt og þétt frá og með júní mánuði 2021.“

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að framlegð hafi verið hærri í ár en undanfarin ár, þótt veltan sé enn talsvert undir því sem hún var 2019, og að útlit sé fyrir ágætis afkomu.

Val milli 20% afskriftar og greiðsludreifingar
Þegar Straumhvarf fór úr greiðsluskjóli í lok júní síðastliðins buðust kröfuhöfum tveir kostir: annarsvegar full greiðsla vangoldinna skulda í fjórum greiðslum, eða 80% greiðsla samstundis. Styrmir segir að um tveir af hverjum þremur hafi valið fyrri leiðina, en þriðjungur þá seinni. Ekki var um aðra niðurfellingu skudla að ræða.

Á þessu ári var skrifað undir kaupsamning um sölu á eignum tengdum flúðasiglingum á Hvítá, Snjósleðarekstri í Skálpa á Langjökli, og hvalaskoðun á Dalvík. Félagið hefur auk þess keypt hluti í félögunum Your Day tours, South East Iceland og Amazing Tours.

Samstæða Arctic Adventures inniheldur því í dag, auk móðurfélagsins, átta fyrirtæki sem tengjast ferðaþjónustu hér á landi, auk eins í Litháen. Gréta María Grétarsdóttir mun taka við sem framkvæmdastjóri félagsins af Styrmi Þór Bragasyni á nýju ári og leiða skráningu félagsins á markað á fyrri hluta þarnæsta árs.