Arion banki hagnaðist um 4,9 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 8,2 milljarða króna hagnað á sama tíma í fyrra. Þá hefur bankinn hagnast um rúma 20 milljarða það sem af er ári. Þetta kemur fram í uppgjöri þriðja ársfjórðungs bankans. Arðsemi eiginfjár var 10,5% á fjórðungnum, samanborið við 17% á sama fjórðungi í fyrra.
Heildareignir bankans námu 1.428 milljörðum króna í lok september, samanborið við 1.314 milljarða króna í lok árs 2021. Lán til viðskiptavina jukust um 11,6% frá áramótum, þar af var 15,6% aukning í lánum til fyrirtækja og 8,5% í einstaklingslánum.
Heildar eigið fé nam 186 milljörðum í lok september, en það lækkaði um 28,9 milljarða frá áramótum vegna arðgreiðslu og endurkaupa á hlutabréfum bankans. Afkoma tímabilsins kemur til hækkunar á eigin fé. Eiginfjárhlutfall bankans samkvæmt reglum FME var 22,8% í lok september og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 19%.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir í tilkynningu að bankinn sé á góðri leið með að ná fjárhagslegum markmiðum sínum fyrir árið 2022. Kjarnatekjur hafi aukist um 19% á milli ára og þróunin almennt jákvæð í starfsemi bankans. Neikvæð þróun á verðbréfamörkuðum undanfarna mánuði hafi hins vegar haft áhrif á fjármunatekjur samstæðunnar á fjórðungnum.
„Eiginfjárstaða bankans er áfram mjög góð og í gangi er endurkaupaáætlun upp á 5 milljarða króna og fyrir liggur samþykki eftirlitsaðila fyrir 5 milljarða endurkaupum til viðbótar.“
Benedikt bætir við að markaðsviðskipti og eignastýring bankans gangi vel þrátt fyrir ólgusjó á mörkuðum og þegar kemur að veltu í kauphöll, Nasdaq Iceland, sé miðlun Arion banka með hæstu markaðshlutdeild á fyrstu níu mánuðum ársins bæði er kemur að hlutabréfum og skuldabréfum.
„Fjármögnunarstaða bankans er góð eftir að hafa í septembermánuði sótt 300 milljónir evra á lánsfjármörkuðum. Þá upphæð nýttum við að nokkru leyti til að greiða upp lán sem voru á gjalddaga á næsta ári. Þetta felur í sér að uppgreiðsluþörf bankans út næsta ár er óveruleg. Þá er lausafjárstaða bankans einnig mjög sterk og gefur okkur færi á að nýta þau tækifæri sem upp kunna að koma varðandi þróun eign fjár og efnahags bankans.
Ísland er um margt í ágætri stöðu þessi misserin, sérstaklega ef við berum okkur saman við okkar helstu nágrannalönd. Vegna innrásar Rússlands í Úkraínu glíma mörg þeirra við háa verðbólgu, ekki síst vegna hækkandi orkuverðs. Við hins vegar höfum okkar jarðvarma og vatnsafl og erum því sjálfbær í þeim efnum sem reynist okkur afar vel nú. Til viðbótar við lægri verðbólgu þá er margt jákvætt í okkar umhverfi og er til að mynda gert ráð fyrir góðum hagvexti á árinu og lágu atvinnuleysi. Við getum því leyft okkur að vera nokkuð bjartsýn á okkar umhverfi fyrir komandi vetur.“