Boð stjórnar Arion banka um skiptihlutföll og viðmiðunargengi í samrunaerindi til stjórnar Kviku banka var talsvert betra en boð stjórnar Íslandsbanka. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins.

Líkt og fram kom í frétt Viðskiptablaðsins í gærkvöldi samþykkti stjórn Kviku banka beiðni stjórnar Arion banka um að hefja formlegar samrunaviðræður milli bankanna og hefur viljayfirlýsing þess efnis verið undirrituð af hálfu beggja aðila. Um leið hafnaði stjórn Kviku beiðni stjórnar Íslandsbanka um samrunaviðræður.

Í viðræðum um sameiningu félaganna er lagt til grundvallar að viðskiptagengið verði 19,17 krónur á hvern hlut í Kviku banka og 174,5 krónur á hlut fyrir Arion banka í væntum samruna. Þannig munu hluthafar Kviku eignast 485.237.822 nýja hluti í sameinuðu félagi sem jafngildir 26% hlut.

Í tilkynningu Arion á föstudaginn, þegar bankinn ítrekaði ósk um samrunaviðræður við Kviku, kom fram að stjórn og stjórnendur Arion banka hefðu undanfarið haldið áfram vinnu við greiningu hagræðis og þeirra tækifæra sem til yrðu við samruna félaganna.

Viðskiptablaðið hefur enn sem komið er ekki fengið upplýsingar um hvernig boð Íslandsbanka var samsett hvað varðar viðmiðunargengi, skiptihlutföll o.s.frv.

Aftur á móti herma heimildir blaðsins, líkt og fyrr segir, að boð bankans hafi verið þónokkuð lakara en boð Arion banka.

Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, sagði í tölvupósti til starfsmanna í morgun að bankinn hefði teygt sig „eins langt í verði og við töld­um hyggi­legt út­frá hags­mun­um hlut­hafa bank­ans“.

10% hærra en fyrra tilboð Íslandbanka

Upphaflegt boð Íslandsbanka, frá því í lok maí er bankinn sendi fyrra erindi til stjórnar Arion banka þar sem óskað var eftir samrunaviðræðum, gerði ráð fyrir að viðmiðunargengið væri 10% yfir markaðsvirði Kviku á þeim tíma.

Dagslokagengi Kviku banka 27. maí sl. nam 15,9 krónum á hlut en samrunaboð stjórnar Íslandsbanka var tilkynnt til Kauphallar fyrir opnun markaða 28. maí. Ætla má að Íslandsbanki hafi horft til viðmiðunargengis fyrir hlutabréf Kviku í kringum 17,5 krónur á hlut.

Líkt og að ofan segir var viðmiðunargengið 19,17 krónur í boði stjórnar Arion banka, sem er tæplega 10% hærra en fyrra tilboð Íslandsbanka gerði ráð fyrir.