Hlutabréfaverð Arion banka hefur hækkað um 2,9% í fyrstu viðskiptum í dag og stendur nú í 175,5 krónum á hlut.
Arion banki sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Samkvæmt drögum að uppgjöri fyrir annan ársfjórðung hagnaðist bankinn um 10 milljarða króna á tímabilinu apríl-júní, sem samsvarar 19% arðsemi eigin fjár.
Afkoma bankans á öðrum ársfjórðungi er um 45% yfir meðaltalsspá greiningaraðila. Bankinn sagði muninn helst liggja í hærri hreinum vaxtatekjum og virðisbreytingum af fjárfestingareignum, lægri rekstrarkostnaði samstæðunnar og jákvæðari virðisbreytingu lánabókar en greiningaraðilar gera almennt ráð fyrir.
Þá séu tekjur af kjarnastarfsemi, samanlagðar hreinar vaxtatekjur, hreinar þóknanatekjur og hreinar tekjur af tryggingastarfsemi, um 10% hærri en spár greiningaraðila.
Akkur: Afkomuspár líklega vanmetnar
Greiningarfyrirtækið Akkur, sem hafði spáð 6,5 milljarða hagnaði hjá Arion á öðrum fjórðungi, bendir í grein á vef sínum í gærkvöldi að á að síðasti ársfjórðungur hafi verið um 14% yfir besta fjórðungi hingað til. Tólf mánaða taktur kjarnatekna bankans hafi hækkað um 4,9% milli fjórðunga.
„Það verður því að segjast að afkoma fjórðungsins er verulega jákvæð og til þess fallin að hækka afkomuspá ársins verulega og fyrsta mat er að afkomuspár fyrir 2026 og 2027 séu líklega vanmetnar.“
Tíu dagar eru liðnir frá því að Kvika banki samþykkti að hefja samrunaviðræður við Arion banka. Viljayfirlýsingin felur í sér að hluthafar Kviku eignist 26% hlut í sameinuðu félagi. Endurspeglar það gengið 19,17 krónur á hlut fyrir Kviku banka og 174,5 krónur á hlut fyrir Arion banka.
Í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun er fjallað um fyrsta mat Akkurs á kostnaðarsamlegð Arion og Kviku. Matið gerir ráð fyrir að kostnaðarsamlegð, þar með talinn vaxtarkostnaður, gæti numið hátt í sjö milljörðum króna árlega frá og með árinu 2027.