Arion banki hagnaðist um 25,7 milljarða króna á árinu 2023 samanborið við 26,0 milljarða árið áður. Hagnaður af áframhaldandi starfsemi jókst hins vegar úr 19,4 milljörðum í 25,7 milljarða, eða um 32,6%, en Arion söluhagnaður af Valitor var bókfærður árið 2022.

Arðsemi eigin fjár var 13,6% á árinu, samanborið við 14,1% árið 2022. Stjórn bankans leggur til að um 13 milljarða króna arður verði greiddur, að því er kemur fram í afkomutilkynningu bankans.

Hagnaður Arion banka á fjórða ársfjórðungi nam 6,2 milljörðum króna samanborið við 5,0 milljarða á sama tímabili árið áður.

Afkoma bankans á síðasta fjórðungi var nokkuð umfram spár greiningaraðila sem áttu að meðaltali von á að hún yrði um 5,7 milljarðar. Í afkomutilkynningunni segir að fjórða ársfjórðungur hafi verið góður í þóknanastarfsemi.

„Afkoma Arion samstæðunnar á árinu 2023 var góð og í samræmi við markmið okkar. Þriðja árið í röð nást öll helstu fjárhagsmarkmið ársins,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.

„Þannig einkennist starfsemi okkar af stöðugleika sem meðal annars byggist á einstöku og fjölbreyttu þjónustuframboði. Í raun er það svo að ekkert fjármálafyrirtæki hér á landi býður viðskiptavinum sínum jafn fjölbreytta fjármálaþjónustu og Arion samstæðan.“

Vaxtatekjur jukust um 47%

Rekstrartekjur Arion á árinu 2023 námu 64,2 milljörðum og jukust um 16% milli ára.

Vaxtatekjur bankans jukust um 47,4% milli ára og námu 123 milljörðum í fyrra. Hreinar vaxtatekjur jukust um 11% milli ára og námu 44,7 milljörðum. Hreinn vaxtamunur var 3,1%, óbreyttur frá árinu 2022.

Lán til viðskiptavina Arion jukust um 6,3% á síðasta ári. Hækkun á lánum til fyrirtækja var 8,2% og 4,6% á lánum til einstaklinga en það voru einkum íbúðalán.

Hreinar þóknanatekjur drógust lítillega saman og námu 16,4 milljörðum. Þá drógust tekjur af tryggingum töluvert saman eða úr 615 milljónum í 152 milljónir.

Í afkomutilkynningu Arion kemur fram að kjarnatekjur, þ.e. hreinar vaxta-, þóknana- og tryggingatekjur (án rekstrarkostnaðar tryggingastarfseminnar), jukust um 7% milli ára. Kostnaður sem hlutfall af kjarnatekjum var 44,7% á árinu, samanborið við 45,0% á árinu 2022