Arion banki skilaði 9,7 milljarða króna hagnaði á öðrum ársfjórðungi en upphæðin inniheldur 5,6 milljarða hagnað af 14,6 milljarða sölunni á Valitor til Rapyd sem komu fram að fullu á fjórðungnum. Bankinn hagnaðist um 7,8 milljarða á öðrum fjórðungi 2021. Arðsemi eigin fjár var 21,8% á síðasta fjórðungi samanborið við 16,3% á sama tíma í fyrra. Arion birti uppgjör annars ársfjórðungs rétt í þessu.
Hreinar vaxtatekjur Arion jukust um 22% á milli ára og námu 9,8 milljörðum. Hreinn vaxtamunur jókst úr 2.9% í 3,1% á milli ára. Hreinar þóknanatekjur Arion jukust um 27,4% frá fyrra ári og námu 4,5 milljörðum. Aðrar hreinar rekstrartekjur voru aftur á móti neikvæðar um 1,1 milljarð á öðrum ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra voru þær jákvæðar um 3,4 milljarða. Munurinn skýrist einkum af fimm milljarða neikvæðri sveiflu í fjármunatekjum bankans.
Sjá einnig: Valitor kaupin að ganga í gegn eftir blessun FME
Rekstrarkostnaður Arion jókst um 4,3% og nam 6,6 milljörðum. Kostnaðarhlutfallið var 50,1% á fjórðungnum samanborið við 42,5% á sama tíma í fyrra.
„Afkoma Arion banka á fyrri helmingi ársins er góð. Þar skiptir mestu að kjarnastarfsemi bankans heldur áfram að þróast með jákvæðum hætti og gengið var frá sölu bankans á dótturfélaginu Valitor á tímabilinu. Kjarnatekjur bankans aukast um tæp 24% á milli ára ef horft er til annars ársfjórðungs og vegur aukning í vaxtatekjum þar þyngst. Jafnframt náðist góður árangur á fjórðungnum þegar kemur að þóknanatekjum sem hafa ekki verið hærri á einum fjórðungi og má rekja það meðal annars til mikilla umsvifa í fyrirtækjaráðgjöf og eignastýringu,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion.
„Á móti kemur að aðstæður á fjármálamörkuðum hafa verið krefjandi sem hefur neikvæð áhrif á fjármunatekjur bankans. Áfram er eigin- og lausafjárstaða bankans sterk og bíður ný endurkaupaáætlun bankans samþykkis eftirlitsaðila.“
Heildareignir Arion námu 1.383 milljörðum króna í lok júní, samanborið við 1.314 milljarða í árslok 2021. Lán til viðskiptavina jukust um 7,9% frá áramótum, einkum vegna lána til fyrirtækja sem hækkuðu um 12,5% frá síðustu áramótum. Heildar eigið fé nam 183 milljörðum í lok júní.