Arion banki tilkynnti í morgun um vaxtabreytingar, tveimur dögum eftir ákvörðun Seðlabankans um að lækka stýrivexti um 0,5 prósentur, úr 9,0% í 8,5%.

Vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum Arion lækka en verðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir bankans hækka. Breytingarnar taka gildi mánudaginn 2. desember.

Óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir Arion lækka um 0,50 prósentustig og verða 10,14% Þá lækkar óverðtryggðir fastir íbúðalánavextir um 0,50 prósentustig og verða 8,3%

Verðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir hækka hins vegar um 0,40 prósentustig og verða 5,04%. Arion heldur þó verðtryggðum föstum íbúðalánavöxtum óbreyttum. Verðtryggðir fastir íbúðalánavextir til 3 ára eru óbreyttir 4,74% og til 5 ára eru óbreyttir í 4,49%.

Í tilkynningu Arion er útskýrt í stuttu máli hvers vegna óverðtryggðir vextir bankans lækka en verðtryggðir hækka.

„Stýrivextir hafa áhrif á bæði verðtryggða vexti og óverðtryggða en með ólíkum hætti. Óverðtryggðir vextir fylgja breytingum á stýrivöxtum ágætlega. Nú voru stýrivextir lækkaðir um 0,5 prósentustig sem skapar svigrúm til lækkunar óverðtryggðra vaxta að teknu tilliti til annarra þátta sem nefndir eru hér að ofan,“ segir í tilkynningu Arion.

„Verðtryggðir vextir til styttri tíma endurspegla hins vegar muninn á stýrivöxtum og skammtíma verðbólgu og eru stundum kallaðir raunstýrivextir. Þessi munur er í dag mikill og hefur farið hækkandi þar sem lækkun stýrivaxta hefur ekki fylgt lækkandi verðbólgu, enda telur Seðlabanki Íslands nauðsynlegt að viðhalda aðhaldi með háu raunvaxtastigi. Þetta sést t.d. vel á skuldabréfamarkaði þar sem verðtryggðir vextir eru háir, sérstaklega vextir stuttra skuldabréfa sem eru nálægt stýrivöxtum í tíma. Því hækka breytilegir verðtryggðir vextir nú en munu lækka þegar raunstýrivextir lækka.“

Íslandsbanki tilkynnti strax í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans á miðvikudaginn um breytingar á vaxtakjörum sínum. Íslandsbanki lækkaði einnig vexti á óverðtryggðum húsnæðislánum sínum en hækkaði vexti á verðtryggðum húsnæðislánum.

Meðal annarra breytinga hjá Arion eru að vextir veltureikninga lækka um allt að 0,50 prósentustig, vextir annarra óverðtryggðra sparireikninga lækka um allt að 0,55 prósentustig en verðtryggðir sparnaðarreikningar hækka um 0,30 prósentustig.