Arnar Sigurðsson víninnflytjandi í Sante hyggst opna 1.000 fm afgreiðslulager í Skeifunni 8 í haust. Þetta kemur fram í færslu hans í morgun á Facebook.
Hann segir að aukin sjálfvirkni verði í búðinni og því má ætla að lagerinn verði sjálfafgreiðslulager. Á fullkomnari gerð slíkra lagera kemur mannhöndin lítið að málum heldur sjá róbotar um flest eða jafnvel öll störf.
Arnar segir að vöruúrvalið í léttum verði aukið mikið en hingað til hefur hann aðallega flutt inn vín frá Burgundy héraði í Frakklandi en hefur á síðustu misserum bætt við vínum frá Ítalíu og Spáni.
Að auki ætlar hann að fjölga bjórtegundum enn meira og verð muni lækka enn frekar.
Arnar bendir á það í færslunni að sem fyrr taki Framsóknarflokkurinn einn flokka afstöðu með sérhagsmunum á kostnað almannahags.
Hér á eftir er færsla Arnars í heild sinni.
Þrjú ár af verslunarfrelsi að baki og nýr 1.000m2 afgreiðslulager framundan í Skeifunni 8 með haustinu með breiðara úrvali, Spánn, Ítalía, Rhone ofl. Bætt aðstaða og aukin sjálfvirkni mun lækka verð enn frekar til neytenda. Aldrei fleiri bjórtegundir og aldrei fleiri viðskiptavinir. Frelsið er yndislegt og verður bara yndislegra!
Athyglisvert að í fyrstu skuli ÁTVR hafa talið að aðkoma einokunarverslunarinnar væri ,,ekki önnur en það hlutverk sem henni væri falið” Skömmu síðar fór stofnunin í tugmilljóna gönuhlaup í réttarsölum á kostnað skattgreiðenda.
Eftir að hafa barist árum saman gegn því sem kalllað var ,,vín í búðir” hóf stofnunin nýlega að afhenda vín í netsölu í gegnum verslanir á landsbyggðinni sem fram að því hafði verið skýrt lögbrot að mati stofnunarinnar.
Sem fyrr er það Framsóknarflokkurinn sem einn flokka tekur afstöðu með sérhagsmunum á kostnað almannahags, rétt eins og áður með einokunarverslun með grænmeti, mjólk ofl.
Sem fyrr taka Neytendasmtökin ekki afstöðu með neytendum og sem fyrr heyrist ekkert í Samkeppniseftirlitinu.