Áskriftartekjur Klappa fyrir rekstrarárið 2024 jukust um 18,3% og nam þá EBITDA-framlegð félagsins 26%. Þetta kom fram á ársfundi fyrirtækisins sem haldinn var í gær en félagið segist ánægt með útkomuna í ljósi markaðsóvissu og fyrirhugaðra reglugerðarbreytinga.

Klappir segjast vera að stíga næstu skref í vöruþróun með markvissum fjárfestingum í gervigreindarinnviðum.

„Við sjáum sífellt meiri eftirspurn eftir sjálfbærnihugbúnaði, bæði hér heima og á Norðurlöndum. Fyrirtæki af öllum stærðum gera sér nú betur grein fyrir mikilvægi þess að innleiða sjálfbærniverklag, ekki einungis til að uppfylla lagalegar kröfur, heldur einnig til að ná fram rekstrarhagræðingu og styrkja ímynd sína sem ábyrgur og framsækinn aðili í samfélaginu,“ segir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa.

Fyrirtækið hefur nú byggt upp alþjóðlegt samstarfsaðilanet sem telur yfir 30 fyrirtæki víðs vegar um heiminn. Með því að samþætta gervigreind inn í hugbúnaðarlausn Klappa áætlar félagið að geta bætt við sig enn fleiri viðskiptavinum ásamt því að minnka kostnað.

„Gervigreindin mun gegna lykilhlutverki í sjálfvirkri gagnasöfnun, einföldun ferla og hagræðingu í gæðastýringu gagna. Viðskiptavinir okkar munu geta tekið betri ákvarðanir, hraðar og með minni tilkostnaði. Við munum smíða þessa virkni beint inn í kjarnavöru okkar á næstu misserum.“